146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandamálið sem ég sé við að semja um breytingar er að við höfum ekki fengið þær upplýsingar sem ættu að vera fyrir tölunum sem settar eru fram í fjármálaáætluninni. Við höfum reynt að biðja um þessar tölur í nefndunum, í fjárlaganefndinni, fagnefndunum, og hvað liggi að baki þessum tölum. Það eru upplýsingar sem við þurfum til að geta samið um hvaða verkefni fara inn eða út eða af hverju þessi tala er svona en ekki hinsegin.

Einnig var talað um skuldirnar. Það mætti kannski vekja athygli á því að skuldahlutfall ríkissjóðs er tiltölulega lágt ef við tökum til hliðar lífeyrissjóðaskuldbindingarnar. En vaxtakostnaður er rosalega hár. Það er annað tækifæri þar, í stað þess að einblína á að lækka skuldahlutfallið rosalega mikið er mögulega hægt að endurfjármagna skuldirnar á lægri vöxtum og minnka þannig vaxtakostnaðinn, sem þetta snýst allt um. Í rauninni snýst skuldaniðurgreiðsluplan ríkisstjórnarinnar um að lækka vaxtakostnað. Það er hægt að gera á fleiri vegu en bara að lækka skuldahlutfallið sem slíkt

Ég velti fyrir mér hvort það væri vænlegra í núverandi stöðu eða ekki.