146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:24]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Já, en það er nefnilega vandamálið með þessa fjármálaáætlun. Það er ofboðslega erfitt að sjá út úr henni hvort málaflokkar eru nægilega fjármagnaðir. Það eru einmitt upplýsingarnar sem við vorum að kalla eftir. Það er erfitt að sjá hvert peningarnir fara. Í raun get ég bara dæmt út frá þeim umsögnum sem bárust. Þar komu einmitt fram áhyggjur af greiðsluþátttökukerfinu, að reksturinn sjálfur í heilbrigðisþjónustunni væri ekki nægilega vel styrktur, að ekki færi nægilegt fjármagn þar inn þannig að heilsugæslustöðvarnar gætu í raun tekið á móti því aukna álagi sem þar verður þegar greiðsluþátttökukerfið er komið í gagnið. Það er erfitt að sjá út úr því.

Það er einmitt það sem þarf að gera. Við þurfum að hafa betri upplýsingar og sjá hvaða tölur liggja að baki til að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort þetta sé nægilegt fjármagn eða ekki.

Ég hefði nú átt að skrifa niður hina spurninguna ... (BjG: Hjúkrunarheimilin.) — Já, varðandi hjúkrunarheimilin. Það er sama vandamál af því að verið hefur uppsöfnuð þörf í svo langan tíma víðs vegar í kerfinu þegar kemur að velferðarmálum, heilbrigðiskerfinu. Þetta fjármagn nær ekki einu sinni að stoppa í gatið. Það er mikil fjárþörf, kerfið er búið að vera svelti í það langan tíma að þetta er ekki nægilega mikið. Hjá gestum nefndarinnar komu fram áhyggjur af því að þetta væri ekki nægilega mikið og að hjúkrunarrýmin myndu fyllast strax og samt yrði áfram þörf, sérstaklega með tilliti til öldrunar þjóðarinnar og (Forseti hringir.) þarfarinnar sem við höfum á þessum rýmum.