146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þegar hv. þingmaður talaði um stöðu ferðaþjónustunnar og áhrif á samfélagið og allt það, sem mér fannst hv. þingmaður fara ágætlega yfir í ræðu sinni, bjóst ég við að hún myndi klykkja út með því að segja: Og það er þess vegna sem við eigum að hætta að gefa erlendum ferðamönnum afslátt af neyslusköttum. En það kom ekki, heldur á að viðhalda þeirri óvissu sem ríkir og hefur ríkt núna síðan ferðaþjónustan byrjaði að vaxa á árinu 2012 með því að segja: Við ætlum að halda áfram að skoða og greina og spá og spekúlera.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Af hverju er ekki æskilegt að hækka verð t.d. á hótelherbergjum 1. júlí? Af hverju ekki? Er ekki einmitt hærra verð í júlímánuði þegar flestir ferðamennirnir eru hér og mesta eftirspurnin er eftir hótelherbergjum?