146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í umsögninni, sem ég vænti að geta farið betur í gegnum í næstu ræðu, þar sem ég bendi á breytingar sem urðu á fjármálaáætlun á bilinu frá 2017–2021 varðandi framlög til framhaldsskólastigsins og síðan núna 2018–2022. Í fyrri áætlun var gert ráð fyrir að framlögin myndu vaxa um tæplega 12%, sem sagt raunvöxtun yfir tímabilið, en í þessari fjármálaáætlun ættu framlögin að lækka um 0,6% árlega. Óbreytt 2018 en lækkar síðan eftir það.

Ég skal viðurkenna að ég hef verið að lesa í gegnum ýmsar umsagnir og álit en hef ekki enn komist í breytingartillögur frá Samfylkingunni. Í framhaldi af þessari ábendingu mun ég sannarlega kynna mér þær. Ég geri ráð fyrir að við í þingflokki Framsóknarmanna munum fara yfir þær breytingartillögur sem hafa verið lagðar fram og leggja áherslu á að afgreiða og samþykkja þær sem við erum sammála um. Ég hefði gjarnan viljað sjá það ef þetta er eitthvað sem allir þingmenn eru sammála um að stangist á við það sem við vildum gera, þá eigum við að sjálfsögðu (Forseti hringir.) samþykkja þær. Við hefðum öll getað verið á þeim tillögum.