146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis byrja á því að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir afar greinargóða og skýra ræðu. Mig langaði til að tæpa á ákveðnum atriðum sem komu fram í máli hans, m.a. varðandi fjárfestingar. Þörf á uppbyggingu innviða er orðin verulega aðkallandi um allt land. Við erum á miklu hagvaxtarskeiði, þenslutímabili, og rökin sem við fáum um framkvæmdir eru þau að við þurfum að passa okkur, það sé svo mikil þensla, hagkerfið sé svo heitt o.s.frv. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvaða skoðun hann hefur á þessari stefnu varðandi landsbyggðina þar sem þenslan er ekki um allt land. Hún er á afmörkuðu svæði (Forseti hringir.) og ljóst er að fjárfestingarstig er víða mjög lágt. Mig langar til að heyra hugleiðingar hv. þingmanns um fjárfestingar og hvernig við greinum þarna á milli.