146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé algerlega bráðnauðsynlegt til að mætaa meðal annars þeirri staðreynd að fæðingartíðnin er að hríðfalla; hún var þegar í fyrra orðin sú lægsta síðan 1838 eða 1853, eða hvað það nú var þegar byrjað var að mæla þetta, og hún hélt enn áfram að lækk á síðasta ári, 2015 og 2016. Það að búa betur að barnafjölskyldum, til dæmis með lengdu og sómasamlegu fæðingarorlofi, er að mínu mati mjög virk aðgerð í þeim efnum. Auðvitað skipta húsnæðismálin þar miklu máli o.s.frv.

Varðandi heilbrigðismálin að öðru leyti þá var þessi fræga undirskriftarsöfnun um að ná þyrfti þessu hlutfalli upp í 11% af vergri landsframleiðslu. Ég hallast æ meir að því að það sé mjög nærri lagi. Mönnum fannst sumum vel í lagt en á einhverju tímabili verður þetta hlutfall að hækka umtalsvert á meðan uppbygging Landspítalans, hjúkrunarheimilanna, legudeildar á Akureyri o.s.frv. er í byggingu. Að þeim tíma loknum, þegar við höfum (Forseti hringir.) fjárfest dálítið vel í innviðum kerfisins, ja, ætli muni þá veita af að færa þá fjármuni yfir í vaxandi þjónustu og umönnun aldraðra? Ég hugsa ekki. Ég er ekki frá því að þarna hafi menn nú bara verið nokkuð nærri lagi og þar af leiðandi gengur þessi áætlun ekki upp hvað varðar heilbrigðismálin. Við verðum að ráðstafa meiru í þennan málaflokk.