148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Barnaverndarmál á Íslandi eru í ólestri og hafa verið um nokkurt skeið. Af þeim ástæðum hefur hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra boðað að fram undan sé heildarendurskoðun barnaverndarlaga og barnaverndarstarfs á Íslandi. Í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu 23. febrúar sl. er fjallað um víðtækar, væntanlegar breytingar á sviði barnaverndar. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Eftirlit með öllu barnaverndarstarfi í landinu verður endurskoðað og ráðist í heildarendurskoðun barnaverndarlaga. Þá verða settar skýrar formkröfur um samskiptahætti stjórnvalda sem gegna hlutverki á sviði barnaverndar. Markmiðið er að efla og þróa barnaverndarstarf í landinu og styrkja stjórnsýslu málaflokksins. […] Hluti þessara verkefna verður á höndum nýrrar gæða- og eftirlitsstofnunar sem tekur til starfa innan velferðarráðuneytisins á næstu vikum.“

Þá kemur fram að frumvarp til laga um eftirlit með barnavernd sé komið á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar en nú, rúmum þremur mánuðum síðar, bólar þó ekkert á því frumvarpi. Að sama skapi á ég erfitt með að sjá nokkuð um að áðurnefnd gæða- og eftirlitsstofnun hafi hafið störf. Þessi heildarendurskoðun á barnaverndarlögum um málefni barnaverndar er afar mikilvæg en þá er mikilvægt að rétt sé staðið að henni og það skiptir máli hverjir veljast til verksins.

Hæstv. ráðherra tók ákvörðun um að Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, skyldi leiða endurskoðunina. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og ýmislegt misjafnt komið upp um fráfarandi forstjóra Barnaverndarstofu sem vekur upp mjög alvarlegar spurningar um hvort hann sé besti kandídatinn í þetta verkefni. Vísa ég þar til umfjöllunar þingsins og velferðarnefndar um tiltekin barnaverndarmál sem leiddi í ljós að Bragi Guðbrandsson hefði í starfi sínu haft óeðlileg afskipti af þeim barnaverndarmálum og að ráðherra hefði beint til hans tilmælum vegna þess. Hér var um að ræða sérstaklega viðkvæm mál og vekur það upp mjög alvarlegar spurningar ef slíkum manni er falið svo ábyrgðarmikið hlutverk.

Þann 23. febrúar sl. samþykkti ríkisstjórn tillögu félags- og jafnréttismálaráðherra um að Bragi Guðbrandsson skyldi verða frambjóðandi Íslands til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Rétt er að nefna að framboðið hefur stuðning hinna Norðurlandanna. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna er æðsta stofnun jarðar á sviði barnaverndar. Öll aðildarríki barnasáttmálans senda nefndinni skýrslu á fimm ára fresti þar sem útlistað er til hvaða aðgerða hefur verið gripið til þess að uppfylla barnasáttmálann og hvernig tekist hefur til.

Barnaréttarnefndin gefur svo út álit á störfum ríkjanna og ber heimaríkjum að birta þær niðurstöður opinberlega. Því er morgunljóst að nefndin og allir meðlimir hennar þurfa að vera algjörlega hafnir yfir vafa um hæfi og með flekklausan feril í störfum sínum. Mig langar að leggja sérstaka áherslu á hversu mikilvægt það sé að barnaverndarmál séu hafin yfir allan vafa. Börn eiga alltaf að njóta vafans.

Sú endurskoðun á barnaverndarmálum sem nú fer fram verður að vera með þeim hætti að tryggt sé að niðurstaðan verði sem best fyrir börnin sem þurfa að nota kerfið. Kerfið þarf að vera þannig úr garði gert að fjármunir nýtist sem best. Í dag er neyðarkall eftir úrræðum. Í dag eru einungis starfrækt tvö langtímavistunarúrræði fyrir börn með bráðan vanda. Ástæðan er skortur á fjármagni, skortur á mannafla, skortur á framtakssemi. Hvað gerist svo þegar heildarendurskoðuninni lýkur og fram eru komnar tillögur? Frábærar hugmyndir kannski, en við eigum ekki pening. Hversu miklu máli skiptir það okkur sem samfélag að það sé passað upp á börnin okkar?

Virðulegi forseti. Mig langar í ljósi þess sem ég hef nefnt hér að beina nokkrum spurningum til ráðherra.

1. Hvað er verið að gera til að tryggja að niðurstaða heildarendurskoðunarinnar verði sem best fyrir notendur þjónustunnar, börnin?

2. Hvernig er gagnaöryggi velferðarráðuneytisins, Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda á Íslandi háttað og eru til samræmdar verklagsreglur um meðferð persónuupplýsinga hjá þessum stofnunum? Er eitthvert sjálfstætt eftirlit með meðferð persónuupplýsinga í þessum viðkvæma málaflokki?

3. Hver verða helstu áhersluatriði Íslands innan barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna ef fulltrúi Íslands kemst þangað inn? Hefur verið mynduð stefna um þátttöku Íslands í nefndinni og ef svo er, hvenær verður hún kynnt þingi og þjóð?