148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:27]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Byrjum á réttum stað. Börnin okkar eru framtíð okkar, mestu verðmæti samfélagsins. Líkamleg og andleg heilsa þeirra er sameiginleg ábyrgð okkar allra og það er sérstaklega á ábyrgð ráðherra sem hefur framkvæmdarvaldið og okkar þingmanna sem eftirlitsaðila með því framkvæmdarvaldi að tryggja velferð barna. Líkamleg og andleg heilsa barna á alltaf að vera í forgangi, hún má aldrei líða fyrir skort á fjármagni. Ráðherra hefur ekki rétt á að hunsa veik börn með þeim rökum að ekki séu til peningar. Það er ekki í boði. Ég hef upplýsingar um að sex til sjö börn séu að kljást við mikla erfiðleika og þurfi sárlega á hjálp að halda en fái hana ekki. Þau börn hefðu getað fengið hjálp ef úrræði á borð við Háholt væri í boði eða meðferðarheimilið sem ráðherra lofaði í byrjun apríl að yrði opnað eftir tvær vikur.

Nýjustu upplýsingar benda til þess að úrræðið verði ekki í boði fyrr en í haust. Þetta úrræðaleysi gerir það að verkum að þau börn sem eiga við hvað mestan vanda að stríða eru vistuð á Stuðlum, Lækjarbakka og Laugalandi innan um önnur börn sem þau eiga enga samleið með og dregur það verulega úr líkum á því að börnin samþykki og taki þátt í meðferðinni. Starfsfólkið er einnig undir miklu álagi og eru margir við það að gefast upp á ástandinu. Neyðarástand ríkir í málaflokknum og ber okkur að bregðast við því með lausnum ekki seinna en strax.

Lausnin er ekki að koma börnunum fyrir í geymslu þar til þau eru orðin 18 ára og hætt að vera vandamál ráðherra, sem virðist vera stefnan núna. Er verið að spara peninga ríkissjóðs með því hreinlega að hunsa vandamálið og bíða eftir að það hverfi? Það er skömm að því og ég krefst þess að úrræðið verði opnað strax í dag og börnunum komið fyrir á öruggum stað þar sem hafist verður handa við að hjálpa þeim. Ráðherra á að hafa efni á því að leysa þetta vandamál. Hvers vegna hefur það ekki verið gert? Hvers vegna er ekki hægt (Forseti hringir.) að treysta orðum ráðherra?