148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:29]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, frumkvæðið að þessari umræðu og hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra svörin.

Í skýrslu nefndar um endurskoðun stjórnsýslu og eftirlits á sviði félagsþjónustu og barnaverndar frá því í maí 2016 segir m.a., með leyfi forseta:

„Afar mikilvægt er að skilja algjörlega að eftirlit og ráðgjöf [með barnavernd]. Það skapar tortryggni og átök þegar einn og sami aðili fer með ráðgjöf um úrræði, rekstur úrræða og eftirlit með framkvæmd þeirra.“

Í síðasta mánuði hóf Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar starfsemi sína. Stofnunin annast fyrst og fremst verkefni á sviði stjórnsýslu og eftirlits með félagsþjónustu sem veitt er af hálfu sveitarfélaga og opinberra stofnana eða á grundvelli samninga. Meðal annars skal stofnunin hafa umsjón með eftirliti með meðferðarheimilum Barnaverndarstofu. Með því er verið að fara eftir ábendingum fyrrnefndrar skýrslu um að taka eftirlitshlutverk með barnaverndarnefndum frá Barnaverndarstofu til þessarar nýju eftirlitsstofnunar, en Barnaverndarstofa hefur eftir sem áður ráðgjafarhlutverkið á sinni hendi.

Þarna er stigið mikilvægt skref í því að treysta hlutverk Barnaverndarstofu sem stofnunar á faglegum grunni og gæti komið í veg fyrir að ágreiningur myndaðist í samskiptum sem drægi úr því mikilvæga hlutverki sem stofnunin hefur.

Þá aðeins að persónuvernd. Það er auðvitað á ábyrgð sveitarfélaga að innleiða kröfur í nýjum persónuverndarlögum á öllum sviðum. Mikið miðlægt starf hefur þó verið unnið í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga og þar starfar bæði lögfræðingur og hópur um persónuvernd. Þetta skiptir miklu máli. Í þessum hópum hafa sveitarfélög verið að vinna að gögnum eins og öryggisstefnu og vinnsluskrám og deilt skjölum sín á milli. Sambandið hefur jafnframt gefið út leiðbeiningar um þau skref sem sveitarfélögin þurfa að taka og sinnt mikilli fræðslu og er það vel.