148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla í seinni ræðu minni að tala um það undarlega sem jaðrar við ofbeldi gagnvart feðrum við skilnað. Það er ekki eðlilegt að við skilnað foreldra fái yfirleitt konurnar réttinn gagnvart börnunum og að enn þann dag í dag skuli staðan vera þannig að feður eigi eiginlega engan séns í þessari baráttu. Ég spyr ráðherra: Finnst honum þetta eðlilegt? Finnst þér eðlilegt að sennilega í yfir 90% tilfella fái mæður börnin við skilnað? Ég vil benda á að í 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.“

Stofnanir og þjónusta sem annast börn og eiga að uppfylla reglur um öryggi, heilsuvernd, fjölda, hæfni starfsmanna og yfirsjón — það sem börnunum er fyrir bestu. Er það börnunum fyrir bestu að fá ekki að umgangast feður sína, afa og ömmur í öðrum ættliðnum? Það myndi ég segja að sé hreint og klárt ofbeldi, brot gegn sáttmálanum og brot gegn börnum.

Í öðru lagi vil ég rétt benda á 12. gr.:

„Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.“

Börnin eiga þennan rétt. Þau eiga rétt á því að umgangast báða foreldra sína, ekki bara annað. Við verðum að tryggja að það sé þannig, ekki bara í orði heldur á borði. Það er óþolandi að feður skuli alltaf vera eftirreka í þessum málum.