148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum þetta viðbótarerindi sitt. Vissulega er hægt að leita andagiftar í ýmsum sagnaarfi, en ég held að við þurfum alltaf að vera með nokkuð gagnrýna linsu á það sem við lesum frá þeim tíma sem hér um ræðir. Það var nú ekki í Mesópótamíu en Hammurabi ríkti á svipuðum tíma, maður sem sagði að við ættum að gjalda auga fyrir auga; hugtak sem var hegningarlagabókstafur víða um heim öldum saman en við höfum nú horfið frá. Eins eru Mósebækurnar fullar af ýmsu ágætu sem örugglega má halla sér að þegar kemur að réttri breytni, en þær eru líka jafn fullar af hroðalegum hugmyndum eins og þeirri að grýta fólk til bana fyrir það að brjóta gegn lögmálinu þótt það séu jafn hversdagslegir hlutir og að skilja við maka sinn eða hvað það er. Ýmsir hlutir sem eiga engan veginn við í nútímasamfélagi.

Ég lýsi ánægju með að heyra frá þingmanninum að þarna hafi hann valið það sem passar vel inn í samtímann og hann gerir sér væntanlega vel grein fyrir því að þegar við förum að ræða, einhvern tímann á næstu misserum, kynfrelsi kvenna — við eigum líka von á frumvarpi um réttindi trans- og intersexfólks — þá verði ekki litið jafn mikið til 5. Mósebókar heldur siðferðislögmála sem eru okkur nær í tíma.