149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

hætta á verkföllum og leiðir til að forðast þau.

[10:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þingmaður segir, tímarnir eru að breytast og það er ástæða fyrir því ástandi sem við horfum upp á, þeirri óánægju, óréttlæti sem margir upplifa og þar er að hluta til hægt að spegla sig í alþjóðakerfinu. Að hluta til vil ég meina að við búum við séríslenskar aðstæður þar sem við getum ekki speglað dæmi utan frá hingað og sagt að það sama gildi hér.

Ég hef ekki skoðað í neinum smáatriðum þær hugmyndir sem vísað er til. Ég vil hins vegar nefna tvennt. Almennt er talað um að taka þurfi á ofurbónusum. Almennt er talað um að það þurfi með stjórnvaldsaðgerðum að koma í veg fyrir að sparifjáreigendur séu settir í áhættu vegna fjárfestingarbankastarfsemi. Ég vil nefna í því sambandi að samkvæmt þeirri hvítbók sem var kynnt hér fyrir nokkrum vikum er það ein af meginniðurstöðunum að við erum á Íslandi að skattleggja íslenska bankakerfið langt umfram það sem gerist annars staðar, þó að það kunni að vera ótengt þeim markmiðum sem verið er að reifa í þeirri umfjöllun sem vísað er til.

Ég horfi hins vegar, eins og mér heyrist hv. þingmaður vera bjartsýnismaður að eðlisfari, yfir stöðuna í efnahagsmálum. Ég sé lítið atvinnuleysi, ég horfi aftur í tímann og sé viðstöðulausan kaupmáttarvöxt ár eftir ár. Við stöndum núna á þessum tímamótum með lausa samninga og maður spyr. Það er þokkalega bjart fram undan, það er þó að hægja á hagvextinum. Við höfum náð gríðarlega miklum árangri í því að bæta lífskjörin. Eru aðstæður núna að kalla á kollsteypur? Í mínum huga ekki, en það getur verið að menn sjái þetta mjög ólíkum augum. Það sem veldur mér áhyggjum er hversu mikið lifir enn hjá sumum hópum af reiðinni (Forseti hringir.) og þeirri upplifun af óréttlæti miðað við þann gríðarlega árangur sem náðst hefur á skömmum tíma.