149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

almenn hegningarlög.

543. mál
[11:33]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á 233. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðið verði þrengt og vernd tjáningarfrelsis um leið aukin hér á landi. Í ákvæði 233. gr. a almennra hegningarlaga segir að hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar eða breiðir slíkt út, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Með því frumvarpi sem ég mæli nú fyrir er lagt til að sú háttsemi sem lýst er í ákvæðinu verði ekki refsiverð nema hún sé til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.

Fjallað er um tilurð 233. gr. a í greinargerð með nokkuð ítarlegum hætti en ég tel rétt að stikla á stóru í þeim efnum. Upphaflega kom þetta ákvæði inn í hegningarlögin árið 1973 í tilefni af fullgildingu Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis. Ákvæðið hefur tekið breytingum nokkrum sinnum síðan þá, einkum í átt í þá átt að styrkja vernd einstaklinga innan hóps og einnig til að bæta inn hugtökunum kynhneigð og kynvitund. Þá var verknaðarlýsing ákvæðisins upphaflega þannig að það var við það miðað að verið væri að ráðast að hópi manna en þessi verknaðarlýsingar síðar tekið nú til að samræma við orðalag annarra norrænna ákvæða. Í þessari breytingu fólst engin efnisbreyting að því er segir í lögskýringargögnum á þeim tíma.

Í lögum um fjölmiðla er skylt ákvæði um bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi með markvissum hætti, eins og þar segir.

Í desember 2017 kvað Hæstiréttur Íslands upp þrjá efnisdóma sem fjölluðu um efni 233. gr. a almennra hegningarlaga eins og hún er núna. Öll mál er vörðuðu ummæli sem einstaklingar viðhöfðu í tilefni af ályktun sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafði samþykkt og sneru að gerð samstarfssamning við Samtökin '78 um hinsegin fræðslu í grunnskólum sveitarfélagsins. Í einu málinu var sýknað, en sakfellt í hinum tveimur og dómþolum gert að greiða 100.000 kr. sekt í ríkissjóð. Þessar sakfellingar hafa kallað á álitaefni varðandi orðalag þessarar greinar, 233. gr. a, og í sjálfu sér á endurskoðun hennar í þágu tjáningarfrelsis og réttar til að láta í ljós skoðanir sínar, hversu ömurlegar eða vitlausar þær kunna að vera. Við lagasetningu af þessu tagi verður að líta til þess að ákvæði 233. gr. a almennra hegningarlaga hefur náin tengsl við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sem og friðhelgi einkalífs sem verndað er af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Gagnstætt þeim réttindum sem þar er lýst stendur rétturinn hins vegar til tjáningarfrelsis. Hann er tryggður í 73. gr. stjórnarskrárinnar og í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Tjáningarfrelsi verða einungis settar skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Ljóst er að gildandi ákvæði 233. gr. a almennra hegningarlaga samræmist tjáningarfrelsi stjórnarskrárinnar, enda hefur Hæstiréttur kveðið á um það með ótvíræðum hætti. Vísa ég þá m.a. til þeirra dóma sem ég nefndi hér fyrr. En aftur á móti gera hvorki stjórnarskráin né mannréttindasáttmáli Evrópu kröfu um svo mikla takmörkun sem í orðalagi ákvæðisins felst og hvað mannréttindasáttmálann varðar sérstaklega hafa aðildarríki hans ótvírætt svigrúm til að marka slíkum refsiákvæðum þrengri farveg.

Þá má líka nefna að ráða má af dómum Mannréttindadómstóls Evrópu að einstök ummæli eða fréttaflutningur af málum er varða hugsanlega hatursáróður, eins og menn hafa stundum nefnt, teljist að jafnaði ekki vera brot á ákvæðum sáttmálans heldur falla undir 10. gr. hans um tjáningarfrelsi.

Með 233. gr. a almennra hegningarlaga er gengið langt í takmörkun tjáningarfrelsisins og raunar mun lengra en nauðsyn krefur til verndar þeim hópum sem ákvæðið fjallar um fyrir því sem nefnt hefur verið hatursorðræða. Verður ekki fram hjá því litið í því sambandi að um refsiákvæði er að ræða sem getur varðað allt að tveggja ára fangelsi. Það er þess vegna sem ég legg til þá breytingu að sú háttsemi sem 233. gr. a lýsir verði einungis refsiverð að hún sé til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun. Það fyrrnefnda, að hvetja til haturs, ofbeldis eða mismununar, felur í sér kjarna þeirra tjáningar sem ákvæðum um hatursorðræðu er ætlað að takmarka. Um leið verður að telja hvatningu til ofbeldis til alvarlegustu brotanna gegn ákvæðinu sem meta verður til þyngri refsingar en ella.

Hvað það síðarnefnda varðar, að kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun, þarf háttsemi af því tagi að fela í sér tiltekið alvarleikastig. Háttsemin þarf að vera til þess fallin að ýta undir slík atriði, þ.e. að leiða til haturs, ofbeldis eða mismununar eða breiða slíkt út. Markviss eða endurtekin tjáning í þá veru sem greinir í ákvæðinu myndi trúlega uppfylla það skilyrði. Einstök og einangruð ummæli myndu hins vegar almennt ekki ná því stigi ein og sér og teljast til þess fallin að kynda undir hatrið, þótt það sé að sjálfsögðu ekki útilokað ef um mjög grófa tjáningu er að ræða sem vitnar um eða er liður í eiginlegri útbreiðslu hatursfullra hugmynda.

Þegar metið er hvort þessu alvarleikastigi sé náð skiptir tilgangur þess sem setur tjáninguna fram einhverju máli, þ.e. hvort telja verði að hann hafi leitast við að ýta undir hatur, ofbeldi eða mismunun, eða hvort tilgangur tjáningar hafi verið annar, t.d. kímni eða að efna til opinberrar þjóðfélagsumræðu. Staða þess sem tjáir sig kann líka að skipta máli og einnig undir hvaða kringumstæðum hann tjáir sig. Tjáning sem er á mörkunum getur þannig horft mismunandi við eftir því hvort hún er sett fram af einstaklingi sem nýtur einhverrar sérstakrar stöðu í samfélaginu, fer með einhver tiltekin völd, t.d. hvort ummælin eru sett fram í mjög útbreiddum fjölmiðli eða hvort um almennan borgara er að ræða sem hefur snöggreiðst eða tjáð sig án yfirvegunar í athugasemdakerfi einhvers netmiðils. Þannig mætti leiða að því líkur að líklegt væri að tjáning hins fyrrnefnda, sem væri t.d. í einhverri valdastöðu, myndi frekar vera til þess fallin að kynda undir hatri en tjáning síðarnefnda einstaklingsins, enda er sannfæringarmáttur hennar kannski meiri. Þó þarf líka að hafa í huga að það þarf líka að játa þeim eitthvert tjáningarfrelsi sem eru í valdastöðu eða fara með eitthvert vald. Vissulega geta þeir líka snöggreiðst eins og hinn almenni borgari.

Sú breyting sem lögð er til með frumvarpi þessu felur í sér þrengingu á verndarandlagi 233. gr. a almennra hegningarlaga þannig að meira þurfi að koma til svo mönnum verði gert að sæta refsingu samkvæmt ákvæðinu eins og það er núna. En eftir sem áður, og það er mikilvægt að ég árétti það hér, verður virk refsivernd fyrir hendi og í fullu samræmi við mannréttindaákvæði stjórnarskrár okkar og þær alþjóðaskuldbindingar sem við höfum tekist á hendur á þessu sviði.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til þóknanlegrar meðferðar og 2. umr.