149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

184. mál
[17:45]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu sem snýr að endurskoðun á lagaumhverfi sem varðar uppkaup á landi. Ég vil byrja á því að þakka frummælendum og þeim í Vinstri grænum fyrir að koma með þessa tillögu. Hún hefur verið nokkrum sinnum á dagskrá og ég held að nú sé lag að ýta þessu úr vör.

Í breyttu umhverfi og opnari heimi er nauðsynlegt að fara yfir þessi mál, að móta okkur stefnu. Við þurfum að móta okkur landsstefnu. Við þurfum að móta okkur stefnu í því hvert við ætlum að stefna. Markmiðin sem eru í tillögunni, eins og að setja skýrar reglur og lög, miða að því að koma í veg fyrir uppkaup erlendra aðila sem ekki hafa lögheimili hér og fasta búsetu.

Ef við lítum út fyrir landsteinana þá hefur Dönum tekist að móta skýran ramma utan um kaup á bújörðum. Kaupandinn þarf að hafa verið búsettur í Danmörku í fimm ár samfellt, eða samanlagt á fleiri tímabilum. Þá má hann kaupa heilsárshúsnæði án sérstaks leyfis frá danska dómsmálaráðuneytinu. Skýrt er tekið fram að hver sá sem kaupir bújörð í Danmörku skuli hafa fasta búsetu á viðkomandi jörð. Þannig er komið í veg fyrir að eignarhald jarða sé fært yfir á fáar hendur. Það hefur Dönum tekist að halda sig við þrátt fyrir að vera innan ESB og lúta þeim reglugerðum að fullu.

Við aðild Íslands að EES-samningnum voru uppi þær raddir að við myndum gera fyrirvara við samninginn hvað varðar þennan málaflokk. En það er athyglisvert að við virðumst hafa gengið heldur lengra ef eitthvað er og virðumst vera hálfsofandi í þessum efnum.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er farið ágætlega yfir það hvernig þessu er háttað, bæði í lagaumhverfinu í Noregi og Danmörku og í framhaldinu er full ástæða til að fari fram mun ítarlegri skoðun og samanburður við það.

Við setjum strangar reglur um erlent eignarhald á útgerðarfélögunum og fiskvinnslu hér á landi og teljum það vera mikilvægt. Hvers vegna er það ekki hægt í þessum efnum?

Hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir talaði áðan um að kannski skipti þjóðernið ekki máli. Það er alveg rétt. Ég man að eftir fyrir hrun var eitt fyrirtæki hér sem keypti upp margar bújarðir. Þær skipta mörgum tugum, jarðirnar sem fyrirtækið keypti, sem endaði svo á að fara í gjaldþrot. Þetta voru jafnvel bújarðir í fullum rekstri. Þá var kannski frekar verið að horfa á kvótann sem einhverja eign, einhverja fjárfestingu, en akkúrat jörðina. Við þurfum líka að móta okkur stefnu hvað þetta varðar og skiptir þá ekki máli hvaða vegabréf sá aðili hefur sem kaupir upp jarðir í stórum stíl.

Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram þingsályktunartillögu þar sem Alþingi ályktar að við mótun almennrar stefnu um eignir og réttindi í eigu ríkisins verði sérstaklega fjallað um bújarðir þar sem litið verður til ábúðar, náttúruverndar, ferðaþjónustu og möguleika fólks til að hefja búskap. Sú vinna er þó farin af stað, eins og fram kom í máli hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur. Vinnan gengur fremur hægt, hver svo sem skýringin er á því, en vonandi heldur hún áfram og skilar sér. Jafnvel væri hægt að taka nokkrar tillögur sem fluttar hafa verið hér sem snúa allar að því að skoða þessi mál, landnýtingu og landskipulag, og taka þær inn í þá vinnu.

Markmið tillögunnar sem ég nefndi, um almenna stefnu um eignir og réttindi í eigu ríkisins, er að málefni bújarða séu höfð að leiðarljósi við mótun almennrar eignarstefnu ríkisins og að stefnan tryggi möguleika fólks til að hefja búskap. Það skiptir máli t.d. þegar við tölum um nýtingu lands. Einnig þarf að horfa til náttúruverndar og uppbyggingar ferðamannasvæða. Sömuleiðis þarf að skilgreina hvers konar landsvæði skuli vera í eigu ríkisins og þar með hvaða landsvæði sé heppilegra að sé í eigu einkaaðila.

Eins og ég sagði þá tala allar þessar tillögur saman, þ.e. að við þurfum að móta okkur stefnu, hvort sem við kortleggjum landið út frá nýtingu, svæðum eða atvinnugreinum.

Virðulegi forseti. Umræðan um eignarhald á landi er ekki ný af nálinni. Það er virkilega kominn tími til að við tökum við okkur. Auðlindir okkar liggja í landi, veiðiréttindum, vatnsréttindum, náttúruperlum. Allt er það undir.

Gagnrýnt hefur verið að laxeldisfyrirtæki séu í eigu erlendra aðila og við séum í raun að selja auðlindir úr landi. En hvað er að gerast með veiðiréttindi og land sem liggur að veiðiám landsins? Hér eru erlendir auðkýfingar að fjárfesta í vatnsréttindum með kaupum á jörðum víða um land og veiðirétti. Einn auðugasti maður Englands á margar jarðir hér að hluta til eða öllu leyti, m.a. í Vopnafirði. Sænskir aðilar eiga líka jarðir með veiðiréttindum. Er þetta umhverfi sem við viljum sjá, eða þurfum við að huga betur að þessum málum?

Virðulegi forseti. Til forna var landeign draumur sérhvers Íslendings. Virðing höfðingja og veraldlegt vald byggðist á stórum hluta á jarðeign og kirkjur söfnuðu jörðum í stórum stíl. Jarðeign er hluti af sjálfstæði og stendur til langrar framtíðar. Það er komið að okkur á þeirri vakt sem nú stendur í þinginu, að tala og framkvæma í alvöru, tryggja sterka umgjörð um eignarhald á jörðum og landi og skipuleggja nýtingu landsins. Því tek ég heils hugar undir þetta mikilvæga málefni og vona að það nái góðri lendingu í atvinnuveganefnd.