150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Nú stendur til að flytja börnin Ali, Kayan, Saja, Jadin og foreldra þeirra með valdi til Grikklands. Ég segi með valdi vegna þess að skiljanlega vill þessi fjölskylda ekki flytja úr örygginu á Íslandi yfir í ómannúðlegar og óviðunandi aðstæður á Grikklandi, sem vissulega má segja að sé að sligast undan álagi. Ég segi með valdi vegna þess að íslenska ríkið, þessi ríkisstjórn, ætlar ekki að gefa þessari fjölskyldu val um að búa hér og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Ég segi með valdi vegna þess að verklag við brottvísun flóttamanna felur oft í sér að börn eru sótt af lögreglu um miðja nótt til að flytja þau úr landi gegn vilja þeirra.

Virðulegur forseti. Það er ekkert í núverandi lagaramma sem skyldar okkur til þess að flytja börn í lögreglufylgd til Grikklands. Þvert á móti höfum við skyldum að gegna gagnvart börnum, hagsmunum þeirra og öryggi. Þvert á móti höfum við ríkar heimildir og sterka siðferðislega skyldu til að vernda þessi börn, bjóða þau velkomin og gefa þeim frið. Það eina sem þarf er pólitískur vilji en sá vilji er ekki fyrir hendi. Auðvitað kemur það mér ekki á óvart að hæstv. dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir haldi áfram margra ára verklagi Sjálfstæðisflokksins um kerfislæga ómennsku við flóttafólk og til að hafa það á hreinu var hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur fullkomlega kunnugt um þetta áralanga verklag Sjálfstæðisflokksins þegar hún gekk til samstarfs við þann flokk. Hún talaði enda um að með samstarfinu væri hún að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að forgangsraða upp á nýtt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)