150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í umræðu um Covid-19 upp á síðkastið hef ég orðið var við það í okkar góða samfélagi að fólk hafi tilhneigingu til að benda svolítið hvert á annað, spyrji t.d. hvort atvinnurekendur eigi ekki að greiða laun fyrir fólk sem er í sóttkví, stéttarfélögin eigi að gera það, verði fólk bara að taka þetta á sig sjálft, eins og þegar það er fast í óveðri eða einhverju þess háttar.

Mig langar að koma hingað upp og hvetja alla Íslendinga og alla sem búa í þessu landi til að muna það að þegar við tökumst sameiginlega á við ógn eins og þessa, þar sem hagsmunir okkar allra liggja undir, þá verðum við og eigum að sýna samstöðu með því fólki sem færir fórnir til að verja samfélagið. Fólk sem þarf að þola sóttkví er að færa ákveðna fórn. Það er ekki lítið mál fyrir hvern sem er að missa það mikið úr vinnu og svo miklar tekjur, sér í lagi núna þegar við erum í verkfalli sem hefur mikil áhrif á getu fólks til að sinna vinnu sinni.

Nú snýst þetta ekki endilega um reglur, ekki endilega um það hvort ríkið ætti að hækka skatta eða hvort atvinnurekendur ættu að gera hitt eða þetta. Ég myndi bara óska þess og vona að atvinnurekandinn sé þolinmóður gagnvart starfsmanni sínum, að viðskiptavinurinn sé þolinmóður gagnvart atvinnurekandanum, að við séum öll skilningsrík á þær fórnir sem fólk, sumt okkar, þarf að færa fyrir samfélagið allt. Sýnum samstöðu í þessu. Það er sjálfsagt að gagnrýna aðgerðir yfirvalda, sem ég er viss um að eru ekki fullkomnar í þessu dæmi frekar en öðru. En þegar kemur að einstaklingi til einstaklings, borgara til borgara, þá eigum við að sýna samstöðu, sér í lagi ef við sjáum fram á erfiða tíma, sem við vonum auðvitað öll að verði ekki.