150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni, um þau mál sem við ræddum í velferðarnefnd í morgun og sendum við þeim sem standa í broddi fylkingar í þessum málum, Þórólfi Guðnasyni og Víði Reynissyni, baráttukveðjur. Þeir standa sig vel með þeirra fólki.

Mig langar að gera að umtalsefni að íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað um 32% frá árinu 2013, úr rúmlega 21.000 í 27.000 íbúa. Næstmesta fjölgunin á Suðurlandi er 17,5%. Af þessum fjölda eru um 23% með erlent ríkisfang. 60% af þeim sem eru atvinnulausir suður frá eru með erlent ríkisfang, fólk sem kom hingað þegar mestu skiptir og okkur vantaði starfsfólk. Stór hluti þessa hóps er að verða atvinnulaus. Á sama tíma eru framlög á Suðurnes með því alminnstu sem gerist. Það virðist að frá því á árinu 2013, þegar ég fór að fylgjast sérstaklega vel með þessu, ég settist á þing, þá höfum við Suðurnesjamenn verið mjög aftarlega á merinni þegar kemur að framlögum til samfélagsins. Ég velti því fyrir mér hvort það sé í rauninni eðlilegt að í þessum sal sé þegnum landsins, árum saman og ár eftir ár, mismunað á þennan hátt. Fjárlög eiga heldur ekki að mismuna þegnum þessa lands. Það kemur í ljós í nýlegri úttekt sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lét gera að á hvern íbúa í Reykjanesbæ er greitt sem samsvarar 71.000 kr. í heilsugæslustöðina. Næstlægsta framlagið er á Heilbrigðisstofnun Norðurlands 102.000 kr., Heilbrigðisstofnun Vesturlands er með 110.000 kr. og Heilbrigðisstofnun Suðurlands er með 121.000 kr. Svona framlög og svona mismunun er óþolandi og er ekki bjóðandi lengur.