150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[15:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur góðfúslega samþykkt að taka þátt í sérstakri umræðu um misvægi atkvæða í alþingiskosningum og þakka ég fyrir það. Einnig hlakka ég til að heyra hin ýmsu sjónarmið talsmanna annarra flokka. Þetta er umræðuefni sem skiptir fólki hratt í fylkingar, iðulega þá stórhöfuðborgarsvæði annars vegar og landsbyggðarkjördæmi hins vegar. Ætlun mín með að hefja þessa umræðu er ekki sú að sýna fram á ágæti annarrar hliðar umfram hinnar því að í þessari umræðu eru tvö grundvallaratriði í ákveðinni keppni, jafnvel mótsögn, hvort við annað og spurningin sem mig langar til að svara á endanum er hvort við getum sett okkur lýðræðislegt kerfi sem tekur tillit til þeirra beggja.

Annað grundvallaratriðið er jafnt vægi atkvæða. Hitt grundvallaratriðið er réttur íbúa á landsbyggðinni og víðar til virkrar lýðræðislegrar hagsmunagæslu.

Eitthvert misvægi atkvæða er í rauninni óhjákvæmilegt að einhverju leyti svo lengi sem landinu er skipt í kjördæmi þannig að það er í lagi að eitthvert svigrúm sé til staðar en sem dæmi mælir OECD ekki með því að misvægi atkvæða fari yfir 10%. Í dag er þó staðan hvergi nálægt því að vera svo góð á Íslandi. Atkvæði í Norðvesturkjördæmi er næstum því tvöfalt á við atkvæði í Suðvesturkjördæmi, þ.e. 99% sterkara. Samkvæmt lögum má þessi munur ekki verða meira en 100% því að þá er farið í að breyta þingmannafjölda. Af þessum ástæðum þarf lítið til til að koma til að Norðvesturkjördæmi missi þingmann samkvæmt 9. gr. laga um kosningar til Alþingis og færi þá þingmannatala fámennasta kjördæmisins í dag, Norðvesturkjördæmisins, úr átta niður í sjö. Færi sá þingmaður til Suðvesturkjördæmisins færi þingmannatala þess úr 13 í 14 og væri þá tvöfaldur þingmannafjöldi Suðvesturkjördæmis á við Norðvesturkjördæmi. Samt sem áður væri atkvæði Norðvesturkjördæmis með 60% meira vægi en atkvæði í Suðvesturkjördæmi þannig að hallinn væri áfram langt úr hófi fram. Með öðrum orðum væri áfram verulegt misvægi atkvæða og Norðvesturkjördæmi væri með enn færri málsvara en áður.

Í 40. gr. frumvarps til nýrrar stjórnarskrár er kveðið á um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt eftir því sem frekast er unnt og er þar með viðurkennt að ekki sé endilega mögulegt að hafa þau fullkomlega jöfn svo lengi sem landið er kjördæmaskipt. Þá er í sömu grein heimild en ekki skylda til að kjördæmaskipta landinu og enn síður tiltekin sérstök tala. Allt þetta vekur eðlilega spurninguna um hvort eina leiðin til að hafa viðunandi jafnvægi atkvæðastyrks í landi með svo fáum þingmönnum sé að gera allt landið að einu kjördæmi. Mögulega. Það eru kostir og gallar við það.

Vík ég þá að hinu grundvallaratriðinu sem er sjálfsákvörðunarréttur fámennari byggðarlaga. Þegar stungið er upp á að sameina landið í eitt kjördæmi kemur strax fram áhyggjan, sem að mínu mati er rökrétt, að verði landið að einu kjördæmi muni þungamiðja ákvarðana ávallt snúast um Stór-Reykjavíkursvæðið og skilja landsbyggðarkjördæmin eftir. Það má svo sem spyrja hvers vegna hagsmunagæslu ætti frekar að skipuleggja eftir landsvæði en t.d. aldurshópum eða kyni, en eftir stæði samt sem áður að líklega er það rétt. Pólitísk hagsmunagæsla á landsbyggðinni yrði erfiðari en ella og af samtölum mínum við kjósendur á landsbyggðinni má ráða að nógu erfið þyki hún fyrir.

Óttinn er við raunverulegt vandamál, nefnilega umboðsleysi og lýðræðislegan vanmátt, að ákvarðanir séu teknar á Stór-Reykjavíkursvæðinu án tillits til aðstæðna úti á landi ef þingmenn eru ekki kosnir sérstaklega fyrir hönd landsbyggðarkjördæmanna sjálfra. Meira eða minna alltaf þegar eitthvað á að gera úti á landsbyggðinni sem Íslendingar allir geta haft skoðun á skynjar fólk mikið vantraust í sinn garð eins og að fólk á landsbyggðinni geti ómögulega tekið upplýsta ákvörðun um virkjun hér eða fiskeldi þar. Þá verður skyndilega sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga háður því að ákvörðunin sé í takt við ákvarðanir teknar í Reykjavík. Slík skilyrði fyrir sjálfsákvörðunarrétti gera hann að engu.

Ekki er nóg með það heldur eru hagsmunir innan stórra kjördæma einnig mjög ólíkir, kannski sérstaklega Norðvesturkjördæmis, enda himinn og haf milli aðstæðna í Borgarnesi og á Ísafirði sem dæmi. Þannig myndi ekki heldur duga að búta einfaldlega fjölmennu kjördæmin niður, í fyrsta lagi vegna ólíkra hagsmuna innan stórra en fámennra kjördæma og í öðru lagi vegna þess að það krefðist stjórnarskrárbreytingar sem að vísu væri kærkomin þeim sem hér stendur.

Virðulegi forseti. Ég gæti haldið áfram en næsta rúma hálftímann sem þessi umræða stendur yfir ætla ég að hlusta vel. Ég hlakka til að heyra hin ólíku sjónarmið í þessum efnum og þakka fyrir fram þeim sem taka þátt.