150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[15:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni. Í grunninn snýst jafnvægi atkvæða um prinsipp, að lýðræðisleg áhrif allra borgara landsins séu jöfn. Við búum öll saman í þessu landi undir sömu lögum og berum öll sömu réttindi og skyldur. Ég hef heyrt því haldið fram að byggð um landið hreinlega leggist af ef atkvæðavægið verði jafnað. Að mínu viti gæti það ekki verið fjær sanni. Ég tel það vera valdeflandi fyrir landsbyggðina að eyða þeirri hugmynd að þingmenn séu fyrst og fremst og sérstaklega að vinna að hagsmunum, gjarnan skammtímahagsmunum, einstakra landshluta eða byggðarlaga, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Við erum of fámenn þjóð til að réttlæta pólitísk hrossakaup og kjördæmapot sem fylgir misvægi atkvæða. Við þurfum samkennd, skilning og yfirsýn sem fæst með því að tryggja að þingmenn vinni að því að gera landið allt samkeppnishæfara um lífsgæði, framfarir og öryggi.

Við í Viðreisn munum halda áfram að tala fyrir jöfnun atkvæðavægis þar til það verður tryggt í stjórnarskrá, berjast fyrir því að tryggja jafnrétti kjósenda til sjávar og sveita. Í því liggja almannahagsmunir og nú er komið í ljós, svo ég vitni í orð hæstv. forsætisráðherra í samtali ríkisstjórnarinnar við þjóðina í tengslum við stjórnarskrárvinnuna, að jöfnun atkvæðavægis er forgangsmál í hugum fólksins í landinu. Það kemur ekki á óvart. Núna er boltinn hins vegar hjá ríkisstjórninni. Hvað gera flokkar sem einna helst hafa hagnast á misvægi atkvæða? Hagsmunir hverra verða núna settir í forgang? Getum við ekki sammælst um að fara þá leið að jafna þetta óréttlæti? Leiðirnar eru sannarlega til staðar. Það hefur komið fram í umræðunni hér. Þær eru margar, a.m.k. fleiri en ein. Það er bara kominn tími til að taka ákvörðun og klára þetta mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)