150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[16:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á þessa umræðu og raunar merkilegt að hlusta á þá sem hafa verið með bollaleggingar um að allt snúist þetta um það hverjir hagnist á breytingum og hverjir tapi á þeim. Ég get ekki fallist á að það sé eitthvað sem við eigum að hafa uppi á borðum í svona umræðu. Við þurfum að ræða málið út frá grundvallaratriðum.

Ég er Reykvíkingur að ætt og uppruna. Ég er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og alla tíð frá því að ég var kosin á þing hef ég litið svo á að mínar skyldur væru miklu ríkari en svo að þær takmörkuðust við legu Miklubrautarinnar um Reykjavík. Ég hef alltaf litið á mig sem þingmann alls landsins og einmitt þess vegna geri ég mér grein fyrir því að aðstæður fólks á þessu landi eru mjög mismunandi, ekki bara hvað varðar aðgengi að stjórnvöldum. Þær eru mismunandi hvað varðar aðgengi að þjónustu, hvað varðar samgöngur og fjarskipti. Þar höfum við Reykvíkingar og höfuðborgarsvæðið haft vinninginn umfram önnur landsvæði þrátt fyrir misvægi atkvæða. Við þurfum að horfast í augu við það þegar við ræðum um þetta, eins og mér fannst hv. málshefjandi gera í báðum sínum innleggjum.

Hins vegar er ég á því út frá grundvallarsjónarmiðum að við eigum að jafna atkvæðavægi en eins og ég nefndi vegna þessara sjónarmiða, vegna þess að gæðunum er ekki endilega alveg jafnt skipt milli höfuðborgarsvæðis og hinna dreifðu byggða og alls ekkert innbyrðis milli hinna dreifðu byggða, skiptir máli að við veltum líka fyrir okkur leiðum og hvort leiðin sé að gera landið að einu kjördæmi eða hvort leiðin sé að fara einhverja blandaða leið eins og við höfum séð gert annars staðar. Þegar þessu var breytt í Færeyjum var um leið aukið vægi persónukjörs samhliða því að gera landið að einu kjördæmi, svo dæmi sé tekið. Hvort hugsanlega mætti fara þrískipta leið.

Mér finnst áhugavert að heyra þingmenn tala um forgangsröðun í þeirri vinnu sem nú stendur yfir á vettvangi formanna flokkanna við endurskoðun stjórnarskrár. Mig langar þá bara að upplýsa hv. þingmenn og segja þeim þær fréttir að sú endurskoðun er á borði formanna flokkanna. Það plan sem þar er unnið eftir var lagt á það borð. Það er ekki sérstök áætlun ríkisstjórnarinnar heldur er hún einmitt til stöðugrar umræðu á þessum vettvangi þannig að ef hv. þingmenn hafa athugasemdir við það (Forseti hringir.) og telja að þetta sé sérstakt plagg ríkisstjórnarinnar minni ég á að næsti fundur formanna flokkanna er 13. mars.