150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Við skulum horfa aðeins fram á veginn. Verkefni almannavarna er að fylgja eftir stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum. Þetta er miklu meira en þátttaka í einhverjum aðgerðum. Á Norðurlöndum eru almannavarnir yfirleitt sjálfstæðar einingar. Þær lúta eigin stjórn og reka ekki stjórnstöð. Þetta tryggir að almannavarnir eru óháðar öðrum stofnunum, t.d. viðbragðsaðilum sem eiga mikilla hagsmuna að gæta og eru stórir þátttakendur þegar kemur að því að bregðast við. Það dregur þannig úr hættu á hagsmunaárekstrum að fara þá leið. Þarna er svolítið verið að snúa til baka frá þeirri stefnu sem var fylgt hér á sínum tíma þegar tekin var ákvörðun um að breyta þessu og leggja niður þessa stofnun. Ég tel að þetta eigi í sjálfu sér ekki að verða stofnun heldur eigi að lyfta starfsemi almannavarna á þann stall þar sem hún á heima og að þetta eigi að vera sjálfstæð skrifstofa á vettvangi ráðuneytis, það eigi að færa starfsemina inn í ráðuneytið með sérstaka skrifstofu sem muni sinna þeim atriðum sem að því koma.

Það er eðlilegt að slíkt sé staðsett í dómsmálaráðuneytinu. Þar er þekking og reynsla til staðar og það þarf einmitt að tryggja aðgang að helstu viðbragðsaðilum og samráði við þá sem eru hryggjarstykkið í öllum þeim aðgerðum sem við þurfum að grípa til. Þeir heyra allir undir það ráðuneyti þannig að það er augljóst að þekkingin í stóru myndinni er mest þar og það yrði mikil hagræðing og sparnaður af því að hafa starfsemina þar innan dyra.

Ábyrgð lögreglu yrði áfram óbreytt við stjórnun aðgerða heima í héraði og hvar sem er á vettvangi. Menn hafa viðrað áhyggjur af sjálfboðaliðastarfinu og hversu mikið hryggjarstykki það er í okkar almannavarnakerfi að hafa sjálfboðaliðabjörgunarsveitir. Menn þurfa ekki annað en að fara í þann rann og tala við það fólk sem þar starfar. Það biður bara um eitt: Látið okkur í friði og við skulum sinna okkar skyldum og störfum sem við höfum skrifað undir í samningi við ríkið.

Það er það eina sem er beðið um á þeim vettvangi og síðan stuðning við stærri aðgerðir og stærri verkefni þegar það er félaginu jafnvel ofviða að fjárfesta í þeim. Þrátt fyrir veikleika (Forseti hringir.) í kerfinu sem ég kom inn á áðan hefur mikið áunnist og ég ber mikið traust til almannavarnakerfis okkar og við getum gert það sem þjóð.