150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[17:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í ljósi orða sem fallið hafa í umræðunni vil ég benda á að í nefndaráliti er talað sérstaklega um eftirlit með iðnaðarlögum. Ábendingar komu þar fram sem nefndin tekur sérstaklega undir og ráðherra hefur nú skipað starfshóp til að fara yfir eftirlit með iðnaðarlögum til að endurskoða það með það að markmiði að bæta framkvæmd þess.

Ég verð líka að segja, virðulegur forseti, að mér finnst hálfhjákátlegt að koma í sífellu upp og tala um einföldun regluverksins og burt með báknið en þegar slík mál birtast í þingsal og eru til umræðu virðast hv. þingmenn finna því allt til foráttu.

Mér detta í hug þrjú mál, í fyrsta lagi þetta mál hér sem lýtur að einföldun regluverks þar sem við horfum til þess að hafa regluverkið sambærilegt og á hinum Norðurlöndunum; leigubílaakstur sem má alls ekki gera frjálsan. Og hvernig var þetta með sameiningu tveggja stofnana fyrir áramót um toll og skatt? Þar sat hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson líka hjá. (Gripið fram í.) Mér finnst þetta hjákátlegt þegar verið er að ræða um einföldun regluverks. Hér erum við raunverulega að gera það, einfalda regluverkið, og við sjáum í atkvæðagreiðslunni (Forseti hringir.) hverjir styðja það.