150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[17:59]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég las allar umsagnir sem bárust um þetta frumvarp og þær voru ansi margar og sumar ansi langar. Við fórum gaumgæfilega yfir þær allar og tókum tillit til einhverra þeirra. Sumar voru auðvitað tæknilegar. Í mörgum þeirra var lýst yfir ánægju með frumvarpið eða bara óánægju og það er gott að fá það fram. En ég vissi auðvitað af ýmiss konar óánægju áður en ég fór af stað með þessa vinnu og vissi að þegar ég myndi leggja frumvarpið að það yrði áfram óánægja. Eitt er að hlusta og annað er að hlýða og það hefði verið ógerningur að leggja fram málið ef ég hefði þurft að hlýða öllum umsögnum sem bárust inn í samráðsgátt af því að þær voru ofboðslega ólíkar.

Hvað varðar þann þátt sem snýr að lífskjarasamningunum og þeim þáttum er því ekki að leyna að sú aðgerð kom ekki þar inn fyrir tilstilli ASÍ þannig að umsögn þess kemur kannski ekki á óvart. En ég er samt ósammála þeirri umsögn vegna þess að ég lít ekki svo á að við séum með frumvarpinu að veikja Samkeppniseftirlitið. Sá málflutningur var mjög tengdur við málskotsheimild eftirlitsins sem gerðar voru breytingar á eftir að málið fór inn í samráðsgátt. Í staðinn er þessi leið farin og ég er ánægð með að það sé í höndum fyrirtækjanna að velja hvort það þjóni hagsmunum þeirra að fara fyrir áfrýjunarnefnd eða ekki vegna þess að ég átta mig á því að sjónarmiðin eru mismunandi eftir fyrirtækjum. Þau eru missterk til að bera upp hagsmuni sína og þegar kemur að þessu máli má segja að það sé margt í mörgu og mér fannst þetta góð lending. En auðvitað á málið eftir að fara í þinglega meðferð og ég geri ráð fyrir því að það verði skoðað gaumgæfilega og sú vinna verði áhugaverð og skemmtileg.