150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

heilbrigðisþjónusta.

597. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þorgrímur Sigmundsson og Ásmundur Friðriksson.

Herra forseti. Landspítalinn er stærsta stofnun og stærsti vinnustaður landsins. Um nokkurn tíma hefur borið á gagnrýni vegna skorts á aðkomu fulltrúa fagstétta að stjórn spítalans. Hvort tveggja læknaráð og yfirlæknar í prófessoraráði Landspítala hafa talað fyrir því að yfir spítalann verði skipuð sérstök stjórn þar sem fulltrúar fagfólks ættu sterka aðkomu að stjórnkerfi spítalans. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, fara forstjórar, skipaðir af ráðherra með stjórn heilbrigðisstofnana, þar á meðal með stjórn Landspítala. Ber forstjóri ábyrgð á að stofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf ráðherra. Þá ber forstjóri ábyrgð á þeirri þjónustu sem stofnunin veitir, að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Einnig ræður forstjóri starfslið stofnunarinnar, þar á meðal framkvæmdastjórn. Bent hefur verið á að svo margþætt og valdamikið hlutverk forstjóra og framkvæmdastjórnar þekkist vart í öðrum ríkjum á Norðurlöndum. Til að mynda eru stjórnir yfir stærstu sjúkrahúsum Svíþjóðar, sem starfa á ábyrgð sveitarfélaganna.

Stjórnir eru skipaðar yfir helstu norrænu sjúkrahúsunum sem litið hefur verið til við mótun íslensks heilbrigðiskerfis. Má þar m.a. nefna Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi og Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg. Þar eru stjórnir sjúkrahúsanna skipaðar af sveitarstjórnum og starfa þær á þeirra ábyrgð. Þær ráða forstjóra og framfylgja ákvörðunum sveitarstjórna í heilbrigðismálum. Forstjóri og framkvæmdastjórn stýra daglegum rekstri sjúkrahúsanna.

Herra forseti. Ef við lítum aðeins um öxl þá var í eldri lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, mælt fyrir um að ríkisspítalar skyldu vera undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, eins og það hét þá, en stjórn þeirra allra að öðru leyti falin sjö manna stjórnarnefnd. Stjórnin var skipuð samkvæmt tilnefningum starfsmannaráðs Ríkisspítala og sameinaðs Alþingis auk þess sem einn, formaður, var skipaður af ráðherra án tilnefningar. Stjórnarnefndinni var falið eftirlit með því að starfsemi Landspítala væri í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu og að spítalinn veitti þá heilbrigðisþjónustu sem lög gerðu ráð fyrir. Meðal annarra verkefna var nefndinni falið að taka þátt í gerð stjórnskipurits fyrir spítalann í samráði við forstjóra spítalans, gera þróunar- og rekstraráætlun fyrir spítalann í samráði við forstjóra hans, hafa eftirlit með að rekstur væri innan ramma fjárlaga á hverjum tíma, gera ráðherra viðvart ef starfsemi og þjónusta væri ekki í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu og gera ráðherra viðvart ef rekstur væri ekki í samræmi við fjárlög.

Í gildandi lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, sem áður hefur verið vísað til, er ekki að finna ákvæði um stjórn sem hefur hlutverk hliðstætt því sem stjórnarnefnd Landspítala hafði. Í 2. mgr. 20. gr. gildandi laga er hins vegar mælt fyrir um ráðgjafarnefnd Landspítala, sem ráðherra skipar. Í greinargerð frumvarpsins segir að ráðgjafarnefndinni sé ætlað að taka við hlutverki stjórnarnefndar, en skýrt er kveðið á um að nefndin hafi ekkert stjórnunarhlutverk. Sú breyting var á sínum tíma gagnrýnd, m.a. þar sem með því væri dregið úr aðkomu fagfólks að stjórnun í heilbrigðiskerfinu. Þessi ráðgjafarnefnd var lengi ekki skipuð og þar af leiðandi hefur hún ekki verið mjög virk.

Það sem er uppi í þessu frumvarpi er hvorki nýtt né frumlegt. Sú hugmynd hefur verið uppi um alllangt skeið að nauðsynlegt væri að yfir stærsta fyrirtæki landsins, stærsta vinnustað landsins, væri stjórn rétt eins og gerist og gengur í almennum fyrirtækjarekstri. Stjórnir fyrirtækja hafa mjög þýðingarmiklu hlutverki að gegna. Í senn veita þær framkvæmdastjórn aðhald og stuðning og hafa sjálfstætt hlutverk við stefnumótun.

Með þessu frumvarpi er lagt til að ráðherra skuli skipa sjö menn í stjórn Landspítalans til fjögurra ára í senn og skal einn vera skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Skipaðir skuli jafn margir til vara. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn skulu vera sérfræðingar á sviði heilbrigðisvísinda og/eða á sviði rekstrar, fjármála og stefnumótunar eða hafa sérþekkingu á starfsemi og rekstri sjúkrahúsa.“

Hér eru því gerðar miklar kröfur til þeirra sem taka myndu sæti í stjórn Landspítalans. Þetta er annars vegar fólk sem hefur skarað fram úr á sviði heilbrigðisvísinda eða skarað fram úr varðandi rekstur, stefnumótun og aðra slíka þætti.

Frumvarpið kveður á um að formaður boði stjórn til stjórnarfunda. Hann stýrir fundum og situr forstjóri fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétti. Ráðherra setur stjórninni erindisbréf og ákveður þóknun til stjórnarmanna sem skal greidd af rekstrarfé stofnunarinnar. Stjórn skal staðfesta skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun og marka henni langtímastefnu. Skal stjórnin hafa eftirlit með starfsemi stofnunarinnar og að rekstur hennar sé innan ramma fjárlaga á hverjum tíma. Formaður stjórnar skal reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi hennar og gera honum viðvart ef starfsemi og þjónusta er ekki í samræmi við ákvæði laga og ef rekstur er ekki í samræmi við fjárlög.

Herra forseti. Það skal áréttað hér að stjórnir gegna grundvallarhlutverki í rekstri fyrirtækja og það hefur því vakið athygli margra að yfir stærstu stofnun landsins skuli ekki vera sérstök stjórn og eins og á stendur, skipuð af ráðherra. Forstjóri spítalans og framkvæmdastjórn njóta því ekki þess aðhalds og þess stuðnings sem stjórnir fyrirtækja almennt veita.

Herra forseti. Ég vil vitna í grein sem birtist 26. júní 2017 þar sem sambærilegar hugmyndir eru reifaðar og þær sem hér er lagt til. Höfundar þessarar greinar eru sex læknaprófessorar, þeir Björn Rúnar Lúðvíksson, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, Guðmundur Þorgeirsson, Pálmi V. Jónsson, Sigurður Guðmundsson og Steinn Jónsson. Þau eru öll prófessorar við Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands og rita grein um málefni Landspítalans í Morgunblaðið sem ég vil vitna til, með leyfi forseta. Þar segir:

„Sterk stjórn talar máli sjúkrahússins út á við en beinir einnig áhrifum sínum inn á við og stuðlar að því að allir lykilþættir starfseminnar njóti sín; þjónusta, menntun og vísindi.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Eftir sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000 varð grundvallarbreyting á þessari skipan en þá færðist öll stjórnunarábyrgð til framkvæmdastjórnar og forstjóra. Síðan þá hafa fagstéttirnar á spítalanum í reynd ekki átt neina beina aðkomu að yfirstjórn spítalans en öll ákvarðanataka og ábyrgð var færð í hendur forstjóra, sem er ráðinn af heilbrigðisráðherra. Forstjóranum er falið að skipa alla sína næstu stjórnendur í framkvæmdastjórn sem hefur bæði stefnumótandi, eftirlits-, framkvæmdar- og rekstrarhlutverki að gegna. Undirrituð hafa ekki vitneskju um að nokkrum forstjóra eða framkvæmdastjórn sé falið svo margþætt og valdamikið hlutverk á háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar.“

Áfram segir í þessari grein sex læknaprófessora, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur borið á vaxandi óánægju meðal starfsfólks og ágreiningi milli fagstétta og yfirstjórnar. Segja má að stjórnunarlegur ágreiningur hafi byrjað fljótlega eftir sameininguna og hafi magnast við seinni stjórnkerfisbreytingar og náð hámarki við þær þrengingar sem harkalegur niðurskurður hefur haft í för með sér. […] Í umfangsmiklum starfsumhverfiskönnunum hefur komið fram mikil almenn óánægja með stjórnkerfi Landspítalans meðal allra starfsstétta hans. Fagfólkið upplifir sig langt frá stjórnendum og jafnvel forstöðumenn fræðigreina hafa litla aðkomu að stefnumótandi ákvarðanatöku. Því teljum við ljóst að núverandi stjórnkerfi Landspítala hafi ekki reynst vel og að brýnna úrbóta sé þörf. Vandinn er ekki bundinn við persónur heldur er hann kerfislægur og liggur í því hvernig kerfið er uppbyggt í kringum óskorað vald forstjórans.“

Með leyfi forseta ætla ég að ljúka tilvísun í þessa grein á tillögu greinarhöfunda, þar sem segir:

„Við leggjum til að æðsta vald innan Landspítala verði í höndum fjölskipaðrar stjórnar með sterkri aðkomu fagstéttanna.“

Það er nákvæmlega það sem þetta frumvarp snýst um.

Áfram segir í grein prófessoranna að stjórnin hafi eftirfarandi þrjú hlutverk: Að ráða forstjóra, að hafa eftirlit með störfum forstjóra og að móta heildarstefnu fyrir stofnunina. Tillagan sé í anda góðra stjórnarhátta í rekstri fyrirtækja og stofnana þar sem áhersla er lögð á aðgreiningu á stefnumótunarvaldi og framkvæmdarvaldi.

Það er svolítið í anda þessarar greinar, herra forseti, sem hér er borin fram rökstudd tillaga um nýja stjórnarhætti á Landspítalanum. Það hafa sést ýmis merki þess að þeirri hugmynd, sem hefur verið á floti og legið í loftinu um skeið, m.a. eins og sést á greininni frá 2017, hafi vaxið fylgi að undanförnu. Ég leyfi mér í því sambandi sérstaklega að vísa til fréttar sem er sótt á vef Ríkisútvarpsins, RÚV eins og það kallar sig, 4. febrúar sl., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ekki hefur verið stjórn yfir Landspítala árum saman en Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, telur rétt að skoða þann möguleika nú að skipuð verði stjórn yfir spítalann. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.“

Ég fagna auðvitað þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra og leyfi mér að vona að þessi tillaga fái notið víðtæks stuðnings að makleikum á Alþingi. Hún er flutt á tíma sem einkennist af því að málefni spítalans hafa verið mjög ofarlega á dagskrá í almennri þjóðmálaumræðu eins og menn þekkja. Nýlega var lögð fram skýrsla sem heitir Átakshópur um lausn á löngum biðtíma eftir innlögn á bráðamóttöku Landspítala – Ytri endurskoðun. Þetta er skýrsla til heilbrigðisráðherra og höfundar hennar eru tveir sænskir sérfræðingar. Það kemur fram í yfirliti um feril þessara ágætu sérfræðinga að þetta eru marktækir og viðurkenndir fræðimenn með glæsilegan feril að baki. Það kemur fram í frétt sem ég ætla að vitna til sem var á vefsíðunni vísir.is 29. febrúar 2020, hlaupársdaginn fyrir skemmstu, með leyfi forseta:

„Stjórnendur Landspítalans brugðust ekki við vanda bráðamóttökunnar, þrátt fyrir að hann hafi verið þeim augljós um langt skeið að mati tveggja sænskra sérfræðinga. Í stað þess að grípa til aðgerða hafi þeir málað spítalann upp sem fórnarlamb, sem hafi beinlínis verið hættulegt að mati sérfræðinganna.“

Í fréttinni segir enn fremur:

„Í upphafi árs var skipaður átakshópur sem gert var að greina og koma með tillögur að því hvernig ráða mætti úr ófremdarástandinu á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.

Hópurinn leitaði álits tveggja sænskra sérfræðinga, Markus Castegrens og Johan Permerts, sem áður hafa komið að sambærilegum úttektum erlendis og skiluðu þeir niðurstöðum sínum þann 20. febrúar síðastliðinn. Þar greina þeir frá aðkallandi fráflæðis- og mönnunarvanda á bráðamóttökunni, sem þeir segja að hafi öllum verið augljós um langt skeið.“

Ég ætla að grípa niður örstutt, herra forseti, í skýrslu þessara erlendu sérfræðinga, svona til að undirstrika hvað það er nauðsynlegt að stjórnskipulag Landspítalans sé í samræmi við þær kröfur sem eru gerðar almennt til fyrirtækja sem bera þunga og mikla ábyrgð, eins og til að mynda Landspítalinn gerir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Æðsta stjórn Landspítala er í höndum forstjóra og framkvæmdastjórnar. Samkvæmt íslenskum lögum er forstjóri Landspítala ábyrgur fyrir öllum ákvörðunum. Framkvæmdastjórnin hefur ráðgefandi hlutverk en tekur ekki ákvarðanir. Þeir sem næst forstjóra standa eru framkvæmdastjóri lækninga, framkvæmdastjóri hjúkrunar og aðstoðarmaður forstjóra.

Jafnvel þótt vandamálið og aðstæður á spítalanum hafi verið augljós og viðvarandi í þó nokkurn tíma, með fullri vitund forstjóra, hafa engar augljósar ráðstafanir verið gerðar til þess að leysa úr vandamálinu. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa beinst að afleiddum áhrifum í stað þess að ráðast á rót vandamálsins. Skilaboðin sem borist hafa frá stjórnendum spítalans gefa í skyn að vandamálið sé frekar af þjóðfélagslegum toga en vandamál sem spítalinn getur leyst eða hægt sé að fást við innan spítalans.“

Ég ætla að lokum að grípa aftur niður í þessa skýrslu, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar mjög áhættusamt fyrir spítalann að fullyrða að hann sé eins konar fórnarlamb í stað ábyrgðaraðila fyrir vandamálinu og eigi þess vegna hlutverki að gegna í lausn vandamálsins. Þar sem Landspítali heldur því fram að langtíma aðgerðir annarra aðila velferðarkerfisins, t.d. uppbygging nýrra hjúkrunarheimila og aukin aðföng til spítalans, séu einu lausnirnar í sjónmáli til þess að bæta stöðuna á bráðamóttökunni, fær fólk á tilfinninguna að aðgerðir innan spítalans skipti litlu máli. Hvað sem spítalinn gerir, muni vandamálið vera viðloðandi.“

Herra forseti. Það er kominn tími til að endurskoða stjórnskipulag Landspítalans. Það er nauðsynlegt að setja yfir spítalann stjórn sem verði framkvæmdastjórn í senn til aðhalds og til stuðnings og hafi það hlutverk sem er lýst í því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir. Það hlutverk er, eins og ég gat um fyrr í ræðu minni, að stjórn skuli staðfesta skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun og marki henni langtímastefnu. Þetta eru mjög veigamikil verkefni og miðað við þá skipan sem er gert ráð fyrir í þessu frumvarpi og þær miklu kröfur sem eru gerðar til þeirra sem taka myndu sæti í stjórn stofnunarinnar má búast við miklum árangri af störfum slíkrar stjórnar. Hér væri um að ræða eitt stærsta og mikilvægasta skipulagsmál í íslensku heilbrigðiskerfi í samtímanum.

Ég skal ekki orðlengja þetta meira að sinni. Ég vænti þess að frumvarpið muni eftir þessa umræðu rata til nefndar og fá umsagnir og ég leyfi mér að láta í ljósi þá von að það komi síðan til áframhaldandi umræðu.