150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

heilbrigðisþjónusta.

597. mál
[19:06]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka aftur fyrir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram. Það liggur algerlega til grundvallar í þessu máli að það séu tveir grundvallarþættir sem rati inn í þessa stjórn. Það er annars vegar þekking á heilbrigðisvísindum. Það liggur algerlega fyrir og kemur glögglega fram í frumvarpinu að með því er verið að koma til móts við eindregnar óskir fagstétta á sviði heilbrigðisvísinda um að þær fái aukna aðkomu að stjórn spítalans. Það er verið að koma til móts við það með frumvarpinu og þetta kemur alveg skýrt fram. Að hinu leytinu til er gerð krafa um að komi inn í þessa stjórn komi aðilar sem hafi sérþekkingu og reynslu af rekstri og það er sérstaklega talað um reynslu og þekkingu á rekstri sjúkrahúsa. Því er gert ráð fyrir því að þessir tveir þættir mætist í þessari stjórn. Sérþekking — afburðaþekking, vildi ég leyfa mér að segja — á heilbrigðisvísindum annars vegar og á rekstri, stjórnun, áætlanagerð og öðrum slíkum þáttum hins vegar. Ég tel algerlega nauðsynlegt að þessir þættir báðir séu fyrir hendi í slíkri stjórn.