152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að mikilvægt er að samfella haldist í framkvæmd barnaverndar á landinu og er mjög bagalegt að ekki hafi tekist að gera það með þeim nýju lögum heldur þurfi að fresta framkvæmd þeirra með þessu frumvarpi. Mig langar að spyrja praktískrar spurningar vegna þess að við erum hér í stakri þingfundaviku á milli tveggja vikna þingfundahléa og kosningarnar eru eftir næsta hlé, sveitarstjórnarkosningar sem þetta frumvarp miðar við. Þá langar mig að spyrja hvaða tímaramma við séum að tala um í afgreiðslu þingsins á þessu máli vegna þess að það er fátt verra en að þurfa að laga frumvörp aftur vegna þess að það hafi orðið mistök vegna flýtis hér á þingi. Ég svona tippaði á það hvað væri snert við mörgum greinum barnaverndarlaganna í þessu frumvarpi og í 3. mgr. reiknast mér til að snert sé á 66 greinum. Það er mjög auðvelt að missa af greinum eða taka óvart inn greinar sem ekki á að taka til þannig að það eitt að rýna barnaverndarlögin til að tryggja það að framkvæmdin fari ekki í nýtt klúður kallar á smá yfirlegu. Þar sem talað er um að þetta eigi hvort eð er ekki að koma til framkvæmda fyrr en 28. maí 2022 í greinargerð þá langar mig að spyrja ráðherra hvort það sé ekki örugglega skilningur ráðherrans, og þar með megi það vera skilningur okkar, að velferðarnefnd hafi þar til eftir sveitarstjórnarkosningar til að klára þetta mál. Þá getum við bara komið saman mánudaginn eftir kosningar, velferðarnefnd getur fundað eftir að hafa kallað til umsagnir næstu tvær vikur og gert þetta almennilega þannig að við þurfum ekki að standa hér í sal nokkrum vikum seinna og hlusta á ráðherrann flytja nýtt frumvarp um leiðréttingu á einhverju sem klúðraðist vegna flýtis.