152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:14]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur almennt er þeirrar skoðunar að ráðherrann eigi ekki að skipa þinginu fyrir verkum eða setja því tímaramma eða hvernig það er. Það er hins vegar alveg ljóst að það er mjög mikilvægt að sem fyrst liggi fyrir að þessi frestur sé veittur af hálfu Alþingis. Ég ætla ekki að leggja mat á það hér hvort það þarf að gerast í þessari viku eða eftir sveitarstjórnarkosningar en engu að síður er það svo að ef einhverra hluta vegna það verður ekki samþykkt fyrir þann tíma sem þarna um ræðir þá þarf að setja upp eitt umdæmisráð á landinu með tilheyrandi raski til þess að vinna út frá þeim lögum sem hér eru. Þannig að því fyrr sem hægt er að ljúka þessu máli, vegna þess að það er tiltölulega einfalt, það snýr eingöngu að því að fresta gildistökunni um þennan mánaðafjölda, þeim mun betra. Það er ekkert annað í þessu frumvarpi heldur en nákvæmlega bara frestunin þannig að því fyrr sem hægt er að skýra það út og koma þeim skilaboðum til sveitarfélaga að Alþingi hafi samþykkt þessa frestun, þeim mun betra. Það væri ábyrgðarleysi að halda ekki áfram að vinna að einhverjum neyðarráðstöfunum gagnvart því að þetta taki gildi eins og það er fyrr en Alþingi er búið að samþykkja það. Þannig að svarið er einfalt: Því fyrr sem það verður, þeim mun betra.