152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og það er gott að heyra að það komu athugasemdir um þetta. Það er sorglegt að heyra að þeim var ekki fylgt eftir eins mikið og hægt var. Hv. þingmaður nefndi einnig að frumvörp kæmu seint fram og væru þar af leiðandi oft afgreidd mjög seint. Í þessu tilviki var þetta frumvarp hreinlega afgreitt á síðustu sólarhringum þingsins, nokkuð sem virðist vera orðin mikil tíska og ég myndi segja að væri ekki góður bragur á hér á Alþingi. Það virðist ekkert vera gert fyrr en á síðustu viku þings. Þá allt í einu þarf að koma 100 frumvörpum í gegn á tíu mínútum og þá verða að sjálfsögðu til mistök. Þá styttum við líka umræður. Við fáum ekki athugasemdir frá þeim sem að þekkja til efnisins og hlutir fara allt of hratt í gegn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann sem nefndi t.d. að þingmál ættu að lifa milli þinga. Mér finnst alveg ótrúlegt hvernig er ætlast til þess að við gleymum allt í einu öllu þegar við eigum að fara í sumarfrí. Það er bara ætlast til þess að við munum ekki neitt þegar við komum til baka og það þarf að mæla fyrir öllum málunum aftur. Það þarf að fá sömu umsagnaraðila til að koma og gefa sömu umsagnirnar og mæta á sömu fundina til að segja sömu hlutina af því við erum búin að gleyma öllu. Hvað telur hv. þingmaður að við getum gert til að bæta vinnubrögð þegar kemur að stórum málum eins og þessu máli?