152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[15:59]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er mjög góð spurning og lýtur að kjarna málsins varðandi frestun framkvæmdar á þessum lögum sem voru samþykkt í fyrra. Ég tel varðandi þau að það beri að líta til hagsmuna barnsins, hvað sé best fyrir barnið og ég tel að það eigi ekki að fara í þá framkvæmd, eins og ég sagði áðan, að setja á fót barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar. Mér finnst það of flókið stjórnkerfið sem var samþykkt með lögum í fyrra og ég myndi vilja hafa það einfaldara. Barnaverndarnefndir væru sameinaðar yfir stærra landsvæði og svo væri yfirnefnd barnaverndar í landinu, svipað og er með yfirskattanefnd, sem úrskurðaði í þessum málum og þaðan færi málið til dómstóla. Ég myndi því telja að þingið ætti að samþykkja frestun, jafnvel frestun fram á mitt næsta ár, og þá með því vilyrði að lagabreytingin í fyrra yrði endurskoðuð enn frekar með því markmiði að breytingarnar nái lengra. Ég tel að breytingin í fyrra hafi ekki gengið nægilega langt. Það tel ég að sé grundvallaratriði. Ég tel að þessi stofnun sem er komið á fót, barnaverndarþjónusta, sé of veikburða batterí, of veikburða stofnun og líka umdæmisráðin og skilgreiningin á hlutverkum ekki nægilega skýr, hvenær barnaverndarþjónusta á að sinna ákveðnum verkefnum og svo umdæmisráðin. Óþarfi að hafa tvær stofnanir. Miklu betra að hafa eina stofnun á sveitarstjórnarstiginu og síðan væri hægt að kæra ákvarðanir til stjórnsýslunefndar sem næði yfir allt landið sem væri með fagfólki og gæti úrskurðað hratt og örugglega. Þaðan færi mál til dómstóla. Þannig að ég myndi hvetja til þess að þetta yrði samþykkt. Ég myndi vilja að þessu yrði frestað. Ég vil ekki að þessi lög sem samþykkt voru í fyrra komi til framkvæmda.