152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:18]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Horfum á stóru myndina. Ríkið hefur nú á innan við ári fengið um 108 milljarða fyrir hlut sinn í Íslandsbanka. Það fé verður notað til að greiða niður ríkisskuldir og uppbyggingu nauðsynlegra innviða eins og t.d. byggingu nýs Landspítala. Sala á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka er liður í því að losa ríkið út úr áhættusömum rekstri fjármálafyrirtækja. Það hefur verið vitað lengi. Það hefur alltaf staðið til að losa ríkið út úr rekstri fjármálastofnana. Í dag eru eigendur bankans um 15.000 í stað eins eiganda. Það hlýtur að vera fagnaðarefni. Langtímafjárfestar eru stærstu eigendur Íslandsbanka. Kaupendur voru ekki handvaldir, Bankasýslan sá um framkvæmd útboðsins. Allir þeir sem sendu tilboð stóðu jöfnum fótum og fjármálaráðherra kom ekki nálægt því að samþykkja eða hafna einstaka tilboðum. Þrátt fyrir allt tal um að kaupendur hafi selt sig strax út er staðreyndin samt sem áður sú að meiri hluti kaupenda hélt sínum hlut eða bætti við sig.

Mikið er rætt um að fá Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitið eða rannsóknarnefnd til að fara yfir ferlið. Það er að mínu mati nauðsynlegt. Ríkisstjórnin vill hafa allt uppi á borðum. Í kjölfar þessarar sölu hafa vaknað upp spurningar um hvort söluaðilar og Bankasýsla ríkisins hafi farið eftir markmiðum stjórnvalda hvað varðar fyrirkomulag sölunnar. Fjármálaeftirlit Seðlabankans og ríkisendurskoðandi hafa nú þegar hafið skoðun á fyrirkomulaginu. Það er alveg ljóst og hefur verið margítrekað og fram hefur komið bæði hjá forsætisráðherra og fjármálaráðherra mikill vilji þeirra til að fara yfir allt ferlið. Ef í ljós kemur að einhverjir hafi misnotað vald sitt eða stöðu sína þá verður ekki við það unað.