152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:43]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Til að byrja með vil ég þakka fyrir þessa sérstöku umræðu um þetta mikilvæga mál. Tillagan um sölu á hlut í Íslandsbanka var og er í samræmi við stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Þar er gert ráð fyrir að á kjörtímabilinu muni ríkissjóður halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum og nýta ábatann til uppbyggingar innviða og niðurgreiðslu skulda. Við erum að koma út úr alheimsfaraldri þar sem stjórnvöld hafa, vegna góðrar stjórnar í efnahagsmálum undanfarin ár, getað stutt dyggilega við fólk, heimili og fyrirtæki í gegnum allan faraldurinn. Þetta hefur auðvitað allt saman kostað. Til viðbótar má auðvitað segja að það sé í raun og reynd óheppilegt til lengri tíma að ríkið sé meirihlutaeigandi í tveimur viðskiptabankanna þriggja. Við þurfum að tryggja hér virka, eðlilega og heilbrigða samkeppni á þessum markaði. Markmið sölunnar voru, auk þeirra sem ég hef áður nefnt, að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af hlutnum, stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma og auka fjárfestingarmöguleika. Að þessu sögðu og með þetta fyrir framan okkur, sérstaklega þegar kemur að heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi, verður að horfa til þessara þátta. Nefndin fékk nokkuð góðar kynningar, þá er ég að tala um efnahags- og viðskiptanefnd, frá Bankasýslu ríkisins þó að mér finnist sjálfum í einlægni framkvæmd sölunnar ekki vera í fullkomnu samræmi við markmið hennar. Ýmislegt hefur vissulega tekist vel en annað miður og upp hafa vaknað spurningar vegna ýmissa þátta og þá þarf að kanna til hlítar. Þar má nefna aðila með neikvætt eigið fé og að söluaðilar sjálfir hafi tekið þátt í útboðinu. Við verðum að treysta Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitinu fyrir því að vinna sína vinnu og skoða þessi atriði máls. Um ferlið þarf að ríkja fullkomið traust og við getum ekki haldið áfram fyrr en við höfum komist til botns í þessum þáttum öllum saman (Forseti hringir.) og samhliða þessu tryggt nauðsynlegt traust á ferlinu til framtíðar.