152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:10]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Varðandi gögnin og svörin við spurningunum þá átti Bankasýsla ríkisins að sjálfsögðu að senda okkur gögnin strax. Það er ekki flókið og mikil vinna. Svo koma þeir bara með svörin seinna. En það virðist ekki vera þannig. Að sjálfsögðu á forseti Alþingis að taka málið í sínar hendur og skora á Bankasýsluna að skila a.m.k. gögnunum strax, sem vonandi koma.

Mig langar að taka til máls líka um rannsókn ríkisendurskoðanda og Fjármálaeftirlitsins eða Seðlabankans. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur að fjármálaeftirlitssviðið í Seðlabankanum er undir fjármálaráðherra. Það er mjög óeðlilegt að þeir séu að rannsaka störf fjármálaráðherra eða athöfn sem hann ber ábyrgð á. Einnig er það að ríkisendurskoðandi er settur ríkisendurskoðandi og er einn af umsækjendum um stöðu ríkisendurskoðanda sem Alþingi þarf síðan að samþykkja. Þannig að óhæði bæði Fjármálaeftirlitsins og líka ríkisendurskoðanda má draga í efa. (Forseti hringir.) Ég er ekkert að draga í efa hæfileika þeirra til að rannsaka þetta einfalda mál. En það má líka benda á það (Forseti hringir.) að þeir sem hafa gagnrýnt þetta, sem er virkilega fínt, eru íslenskir akademíkarar í erlendum háskólum, bæði við viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar, Guðrún Johnsen prófessor, og líka Sigríður Benediktsdóttir, (Forseti hringir.) prófessor í Bandaríkjunum. Það heyrist ekki orð í íslenska háskólasamfélaginu varðandi þetta mál (Forseti hringir.) og þeir mættu lesa kannski skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, kaflann um þá sjálfa.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir enn og aftur á að hér ber að virða ræðutíma. Ræðutími um fundarstjórn forseta er ein mínúta. )