152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[18:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Fyrst smá útúrdúr um þessa áherslu sem hæstv. ráðherra leggur á það að þingflokkar aðrir en stjórnarflokkarnir tilnefni fulltrúa í hans eigin nefnd um þessi mál sem er ætlað að manni sýnist, miðað við orð ráðherra hér í pontu, fyrst og fremst til að múlbinda þá fulltrúa sem valdir eru til starfa í slíkri nefnd. Áherslan sem hæstv. ráðherra leggur á það að ég sé hér sem þingmaður Miðflokksins úti að aka í umræðunni vegna þess að Miðflokkurinn hafi undir lok þessarar vinnu ekki átt fulltrúa í nefndinni bendir til þess að þetta sé sama nálgun og átti að viðhafa hjá ríkisstjórninni í tengslum við svokallað miðhálendisfrumvarp þar sem allir flokkar voru fengnir til að tilnefna þingmann sem átti síðan að vísa í að hefði átt að skilja þetta allt og sjá þetta allt fyrir þegar á reyndi. Þetta er verklag sem ég held að hljóti að kalla á það að það verði bara skoðað sérstaklega að menn hætti slíkum nefndaskipunum ef markmiðið er, eins og ég segi, að gera þingmönnum erfiðara fyrir á seinni stigum á grundvelli þess að flokkur þeirra hafi átt sæti í einhverri nefnd sem fulltrúar ráðherra hafa fullt forræði á. Þá er verr af stað farið en heima setið hvað það samráð varðar. Við þingmenn eigum auðvitað að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Það er okkar að skoða og gagnrýna hvernig til hefur tekist með þá lagasetningu sem hér var keyrð í gegn í fyrra til að hæstv. ráðherra gæti barið sér á brjóst í kosningabaráttu að hausti. Ég held að við séum öll sammála um það að fremst viljum við hafa velsæld barna og farsæld barna. Leiðirnar að því eru margvíslegar en gagnrýnin á það með hvaða hætti hefur verið haldið á þessu málapakka stendur, sérstaklega er varðar fjármögnunina.