152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[18:20]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég er ekki kominn hingað til að fara eitthvað djúpt í efnislega umræðu um málið sjálft, efnisatriðin sjálf sem snúa að barnaverndinni eða neitt slíkt. Ég held að við séum flest hér í þingsal þeirrar skoðunar að það eigi að styðja þetta. Hugsunin á bak við þetta allt saman er mjög góð. Mig langar hins vegar að gera grein fyrir ákveðnum þætti út af forsögunni sem mér finnst skipta svolítið miklu máli og í því samhengi langar mig að vitna í greinargerðina sem fylgir því máli sem við erum að tala um. Þar segir, með leyfi forseta:

„Af ýmsum ástæðum hafi gengið hægar en vonir stóðu til að innleiða og undirbúa breytingarnar. Þar spili ýmis atriði inn, þar á meðal kosningar til Alþingis, breytt skipan ráðuneyta og tilfærsla málaflokka innan Stjórnarráðs Íslands sem og innleiðing nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Einnig er þar minnst á heimsfaraldur Covid-19 og fleiri atriði. Í bréfinu er jafnframt fjallað um að mikilvægt sé að stjórnsýsla barnaverndar gangi snurðulaust fyrir sig og að til þess þurfi meiri tíma til undirbúnings en upphaflega var áætlaður.“

Þetta er auðvitað allt saman gott og blessað. Kemur reyndar svolítið á óvart að þarna spili kosningar til Alþingis mikið inn í vegna þess að það er alveg óskaplega fyrirsjáanlegur atburður og vel hægt að gera grein fyrir og vinna í kringum, það verður að segjast alveg eins og er. Það gildir kannski aðeins öðru máli með til að mynda heimsfaraldur. Ég ætla reyndar að leyfa mér að viðra þá skoðun mína hér að heimsfaraldur sé stundum notaður til að útskýra alls kyns tafir en ég ætla hins vegar ekki að halda því fram að það hafi endilega verið raunin í þessu máli. En það þekkjum við og höfum oft orðið vitni að, að þessi blessaði heimsfaraldur hafi verið notaður til að útskýra hluti sem tengjast honum ekki með neinum hætti. En eins og ég segi, ég ætla ekkert endilega að vera að halda því fram að það eigi við hér.

Það sem mig langar hins vegar að gera að umtalsefni og halda til haga út af forsögunni er að hér fór fram mikil umræða á sínum tíma þegar þessi ríkisstjórn var mynduð um uppstokkun Stjórnarráðsins og hvernig ætti að haga þeim málum. Þá var auðvitað mikið talað um það hversu langan tíma tók að mynda þessa ríkisstjórn og líka hversu mikil uppstokkunin varð. Það klóruðu sér margir í kollinum yfir því hvernig það var gert. Inni í það spilaði umræðan um að sú uppstokkun, eins og augljóst var, væri viðbrögð við breyttum valdahlutföllum innan ríkisstjórnarinnar sem er sjálfsagt að taka tillit til. Við þekkjum það að Framsóknarflokkurinn vann kosningasigur og VG tapaði áhrifum sínum í þessum kosningum og menn þurftu að teikna valdahlutföllin upp á nýtt og á því hef ég mikinn skilning og annað. En við hins vegar bentum á, og það er einmitt það sem er að koma í ljós akkúrat í þessu máli ef marka má greinargerðina, og studdum það gögnum og umsögnum og öðru sem kom fyrir þegar þingsályktunartillagan um uppstokkun og skiptingu Stjórnarráðsins var tekin fyrir, að einmitt við þessa miklu uppstokkun, hvernig hún var gerð, hvernig ráðuneyti voru bútuð sundur og hvernig málaflokkar færðust á milli og stundum var slitið á milli að því er virtist með tilviljanakenndum hætti, að umsagnaraðilar bentu á að það gæti orðið þjónusturof, menn notuðu það orð. Það gæti orðið til þess að það yrði ákveðið þjónusturof. Auðvitað er það bara eitthvað sem má alveg búast við að geti orðið og ég hélt því alltaf til haga og minn flokkur í þessum umræðum að ríkisstjórnin hefur sjálfdæmi um það, þó það nú væri, hvernig eigi að skipta verkefnum á milli ráðuneyta og ráðuneytum síðan á milli flokka og það allt saman. En að menn þurfi að gera það með faglegum hætti og að menn þurfi að passa upp á nákvæmlega þessa hluti, að við þetta mikla uppstokkun þá gerist það ekki annaðhvort að verk hverfi ofan í einhvers konar tómarúm eða þá að það verði rof á þjónustu eða þá að einhver verkefni falli á milli skips og bryggju. Á því eru alltaf svolítil hætta. Það er greinilega að raungerast hér ef marka má þessa greinargerð þar sem talað er um að tilfærsla málaflokka innan Stjórnarráðs Íslands og breytt skipan ráðuneyta hafi hér haft eitthvað um þetta allt saman að segja.

Það var talað um að þetta gæti bitnað á löggjöf, þetta gæti bitnað á þjónustu og alls konar úrræðum. Við töluðum um að þetta virtist oft illa undirbúið og illa rökstutt. Þar gagnrýndum við þau vinnubrögð að þrír aðilar skipti með sér verkum og hafi fáa með í ráðum þegar er verið að hluta niður ráðuneyti og skipta þeim aftur upp og setja undir nýja ráðherra og færa til verkefni eins og stundum er. Það þurfi að viðhafa faglegri vinnubrögð en bara að einhverjir þrír einstaklingar, þótt góðir séu, sjái um þetta. Þar vísuðum við auðvitað líka í umsagnir sem komu fram einmitt um það að sérþekking sem til er innan Stjórnarráðsins var ekki nýtt sem skyldi og hún var eiginlega ekki kölluð að borðinu fyrr en allt var um garð gengið. Þetta er allt að raungerast hér í þessu máli sem mér finnst full ástæða til að halda til haga þrátt fyrir að ég vilji svo sannarlega ekki standa í vegi fyrir því að efnislega nái þetta mál fram að ganga, bara engan veginn. Ég vil halda því til haga í framhaldi af þessari umræðu sem varð um Stjórnarráðið og skiptingu þess að þetta snerist allt um kosningaúrslitin en ekki skilvirkni.

Mig langar aðeins í þessu samhengi að vísa í nefndarálit sem minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar flutti við það tilefni og þar sagði:

„Engar markvissar áætlanir eða hugmyndir hafa verið kynntar um hvernig ráðuneytin muni vinna saman og hvernig tryggt verði flæði upplýsinga og samvinna milli þeirra sem er forsenda þess að uppskiptingin geti gengið upp. Svo virðist sem ríkisstjórnin sé að lofa því að vinnubrögð muni breytast á einni nóttu með því einu að skrifa um það yfirlýsingar í greinargerð, án undirbúnings, samráðs eða aðkomu sérfræðinga og hagsmunaaðila og þvert á ráðleggingar þeirra sem best þekkja til um fyrirkomulag stjórnsýslukerfa. Ekki verður fram hjá því litið að í umsögnum og hjá gestum sem kallaðir voru fyrir nefndina voru viðraðar verulegar áhyggjur af því að tilfærsla verkefna á milli ráðuneyta gæti í einhverjum tilvikum bitnað á þeirri þjónustu sem stofnunum er skylt að veita samkvæmt lögum.“

Þetta er síðan, eins og ég nefndi, eitt af því sem er nefnt í greinargerðinni ásamt því að kosningar til Alþingis virðast hafa komið flatt upp á menn einhverra hluta vegna og síðan er talað um heimsfaraldurinn og fleiri atriði og margt af því er örugglega gott og gilt.

Þetta mál og það sem fram kemur í greinargerðinni er eitt af því sem mun væntanlega detta í þann sarp sem tekinn verður saman í stöðumatsskýrslu sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á að fá um þessar breytingar sem gerðar voru á Stjórnarráðinu, þeirri miklu uppstokkun og hvernig það allt saman gengur fyrir sig og hvort það sé að raungerast sem margir höfðu áhyggjur af og undirritaður þar með talinn, að ekki hafi kannski verið nægjanlega vandað til verka.

Ég ætla líka að halda því til haga að ég efast ekki í eina mínútu um góðan vilja hæstv. ráðherra til að huga vel að hagsmunum barna. Hann hefur sýnt það í ræðum og riti að hann vill stokka svolítið upp þá málaflokka sem tengjast börnum og reyna að samhæfa hluti og gera hluti skilvirkari í þeim tilgangi að börnin njóti vafans og að hagsmunir þeirra séu alltaf í forgrunni, bæði í löggjöf og öllum þeim úrræðum sem grípa þarf til þegar hagsmunir þeirra er undir og ég fagna því auðvitað. En mig langar líka áður en ég lýk máli mínu að lýsa yfir vonbrigðum mínum með það að þrátt fyrir þennan góða vilja og fögur áform og fyrirheit þá hefur það gengið miklu hægar en að við öll, held ég, vonuðumst eftir að saxa t.d. á þá biðlista sem við erum að fá fréttir af m.a. frá umboðsmanni barna að séu frekar að lengjast heldur en hitt. Það er ekki neinn illur vilji á bak við það. Ég geri mér grein fyrir því að það getur verið flókið að fara í svona viðamikil verkefni eins og hæstv. ráðherrann hefur verið að tala fyrir og er í miðju kafi við að innleiða. Ég árétta það að á sama tíma og ég styð hann til allra góðra verka í því að mér þætti vænt um að sjá þess merki fyrr en síðar að biðlistar styttist. Svo held ég til haga að varnaðarorð um þessa uppskiptingu ráðuneyta innan Stjórnarráðsins og verkefnatilflutningur á milli ráðuneyta og jafnvel á milli ráðherra, eitthvað af þeim áhyggjum sem við vorum með virðast vera að raungerast þótt ekki sé lengra liðið frá því að þessi skipting var sett í lög.