152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[19:01]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Mér finnst þetta afar áhugavert umræðuefni og ég held að við höfum áður rætt þetta hérna, einu sinni eða tvisvar, nákvæmlega það sem hv. þingmaður er að koma inn á. Mig langar í umræðu um það við hv. þingmann en aðeins áður vil ég fara inn á kostnaðarmat á þessu máli, af því að ég var að vitna áðan til hagrænna ávinninga af farsældarlöggjöfinni sem er stóra löggjöfin. Þar unnum við þessar greiningar sem hv. þingmaður var að tala um. Varðandi barnaverndarlögin þá skal það bara viðurkennt að við unnum ekki jafn djúpar og ítarlegar greiningar á því en erum hins vegar núna að vinna í því í nýju mennta- og barnamálaráðuneytið að búa það til þannig að við séum að vinna með sama hætti með öll mál eins og við unnum með farsældina.

Ég vil bara segja að auðvitað hafa öll mál einhver áhrif á ríki og sveitarfélög. Það gefur augaleið. Allt sem við gerum hér á þinginu hefur einhver áhrif. Ég dreg samt í efa að það hafi ofboðslega mikil fjárhagsleg áhrif ef það er verið að breyta skipulaginu á því hvort það eru pólitískt kjörnar barnaverndarnefndir eða svæðisráð. Það myndi hafa meiri áhrif ef þú værir að ræða ákveðin úrræði, þannig að það sé sagt. Við eigum þessar greiningar varðandi farsældarlögin og erum að vinna eftir þeim. En það sem mér finnst vanta inn í sérstaklega málefni barna eru allar þessar hagrænu greiningar. Þegar við erum að tala um þessi mýkri mál, sem eru velferðarmál og menntamál og slík mál, erum við ekkert rosalega mikið í því að greina hagrænt hverju þau skila. Það var ekki og er almennt ekki gert í ríkiskerfinu. Því þurfum að breyta og það erum við að gera og ætlum okkur að gera með öll þau mál sem eiga að koma út úr nýju ráðuneyti. Við erum að undirbúa það. En líka að vera með einhverjar tölfræðimælingar á málefnum barna. Við erum ekki með þær. Við erum ekki að mæla vellíðan og árangur barna og við erum að reyna að breyta því líka. Sveitarfélögin eru innleiða mælaborð. Það er að fara af stað spurningavagn (Forseti hringir.) núna í sambandi við samstarfið við háskólann inn í alla skóla sem við getum sent árlega til að hafa þessa núllstöðu og þessa tölfræði, því að hvernig eigum við að mæla árangurinn (Forseti hringir.) ef við höfum ekki tölfræðina og erum ekki að safna upplýsingum og erum ekki greina hinn hagræna árangur? Þannig að þegar hv. þingmaður í fjárlaganefnd spyr mig (Forseti hringir.) þá er bara heiðarlegt svar: Við höfum ekki þessar tölur en við þyrftum að hafa þær og við erum að reyna að breyta því þannig að við munum hafa þær.