152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[19:39]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Spurningin er: Telur ráðherra að þetta frumvarp standist að fullu EES-rétt? Til þess er leikurinn gerður, virðulegi forseti, og ef hv. þingmaður er með málefnalegar athugasemdir um að þetta sé eitthvað sem standist ekki þá er mikilvægt að það komi fram og komi þá fram við vinnslu málsins. Ég held að við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru þegar kemur að þessum málum. Ég er ekki bara að kynnast þessu sem ráðherra í þessum málaflokki heldur var ég bæði nefndarmaður og formaður í hv. umhverfisnefnd hér á árum áður og mín reynsla er sú að menn þurfi að fara mjög gaumgæfilega ofan í mál sem þessi. Þó að viljinn sé góður þá er þetta mál með þeim hætti að það kallar mjög á það að menn fari vel yfir málin. Það hafa menn gert í ráðuneytinu og í því samráðsferli sem ég rakti í ræðu minni áðan. En síðan erum við með hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem mun kalla til allra helstu sérfræðinga því að markmiðið er að þetta uppfylli EES-réttinn. Það er alveg skýrt að til þess er sá leikur gerður.