152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[19:42]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er ekki verið að leyfa MAST að samþykkja gallað mat. Hér stendur:

„Sérstaklega er áréttað að um þurfi að vera að ræða starfsemi sem hafi hlotið starfs- eða rekstrarleyfi að undangenginni þóknanlegri meðferð að uppfylltum skilyrðum, þ.m.t. að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati viðkomandi framkvæmdar, en það leyfi síðan verið fellt úr gildi vegna tiltekinna annmarka. Verður því ekki fallist á að í því felist hvati til framkvæmdaraðila að skila inn ófullnægjandi umhverfismati í trausti þess að hljóta heimild til bráðabirgða. Með frumvarpinu er þess gætt að löggjöfin bjóði ekki upp á leið fram hjá reglum EES-réttar enda skilyrði að bætt verði úr annmörkum umhverfismats á gildistíma leyfis til bráðabirgða.“

Auðvitað er markmið frumvarpsins eins og ég nefndi að uppfylla EES-rétt. Mér finnst mjög gott að menn ræði þetta hér og mikilvægt en það er verið að gera strangar kröfur. Síðan hafa hv. þingmenn auðvitað tækifæri til þess að ræða þetta aftur hér í þingsal og sömuleiðis í nefnd.