152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:07]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Það er ekki markmið hér að leyfa að það sé hægt að skauta fram hjá eða gera eitthvað lítið úr þeim reglum sem eru til staðar. Það er ekki uppleggið. Við erum að koma til móts við athugasemdirnar. Þess vegna stend ég hér og við stöndum hér og tökum þessa umræðu í þingsal. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að við séum ekki að ná því markmiði okkar að uppfylla þessi skilyrði þá er ég sannfærður um að það muni koma fram í umfjöllun nefndarinnar. Ef við myndum ekki uppfylla þau skilyrði þá liggur alveg fyrir að þá þurfum við að fara annan hring. Þá þarf sá sem hér stendur eða sá sem á eftir kemur að koma aftur með frumvarp, það liggur alveg fyrir. Ég held að það sé bara mikilvægt að við nálgumst þetta með þeim hætti, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þetta eru ekki einföldustu mál í heimi. En almenna reglan er sú í öllu þegar kemur að lögum og reglum í þessu samhengi þá reyna menn, og við þekkjum það nú svo vel, Íslendingar, því að margt hefur óvænt komið upp, að hafa einhverja leiðir ef einhverjir hlutir koma upp sem menn sjá ekki fyrir. En á sama hátt mega þeir ekki vera þannig að það sé verið að misnota þá til að komast fram hjá reglunum. Það liggur alveg fyrir. Mér er til efs að einhver vilji ekki hafa þá hluti til að geta brugðist við óvæntum aðstæðum. En slíkt er ekki gert til þess, af því að hv. þingmaður vísaði til þess og líka hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, að það sé hægt að sniðganga reglurnar, alls ekki.