152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég held að þetta mál sé allt til bóta svona fljótt á litið. Ráðherra taldi upp nokkra kosti sem kæmu til greina; varmadælur, sólarrafhlöður o.fl. Ég náði ekki að finna það í hraðlestri á meðan hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu en eru takmarkanir á því hvaða lausnir falla undir þessa niðurgreiðsluleið? Ef þær eru til staðar, eru þær formaðar á grundvelli útblásturs eða hverjir eru parametrarnir sem takmarka það að falla undir þessa lausn ef þeir eru einhverjir? Mig langar í þessu samhengi að nefna að nýlega var í fréttum orkuöflun austur á fjörðum þar sem er verið að tæta í sundur vörubretti og nota, ef ég skildi það rétt, í „carbon neutral“-brennslu sem skapar orku þar fyrir sjúkrahúsið og fleiri stofnanir á Norðfirði, held ég að hafi verið, og líka á Eskifirði. Myndi slík lausn falla undir þetta niðurgreiðslukerfi? Á þetta við eingöngu um heimili eða falla fyrirtæki sömuleiðis undir þetta á köldum svæðum?