152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þessi tilfinning ofgnóttar gagnvart orkuauðlindinni okkar er eitthvað sem ég nefni t.d. í samhengi við umræðu um einangrun húsa. Við fengum nýja byggingarreglugerð hér fyrir rúmum áratug sem var gagnrýnd af ýmsum hagsmunaaðilum fyrir það að ganga nokkuð langt í kröfum til orkunýtni húsnæðis. Þá voru notuð gegn þeim sjónarmiðum þau rök að ef það væri eitthvert vandamál að húsið væri að leka hita þá væri bara hægt að skrúfa upp í ofninum. En það er náttúrlega ekki þannig eins og við sjáum t.d. á því að Orkuveitan hefur þurft að loka fyrir afhendingu heita vatnsins til stórnotenda reglulega síðustu vetur. Sundlaugarnar hafa þurft að loka vegna þessa. Þess vegna held ég, eins og ráðherrann segir, að það sé mikilvægt að spara alla orku (Forseti hringir.) og þess vegna þarf að grípa til einhverra markvissra aðgerða, ekki bara á köldu svæðunum heldur líka heitu svæðunum til að draga úr orkunotkun.