152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[23:04]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002, umhverfisvæna orkuöflun. Ég fagna þessu frumvarpi og vil þakka ráðherra fyrir góða framsögu í málinu og get tekið undir mjög margt af því sem hefur komið fram í umræðunni til þessa. Frumvarpið er fyrst og fremst hugsað til einföldunar en hefur það markmið að draga úr sóun á auðlindum, orkuauðlindum, með aukinni nýtni. En ég vil líka hvetja til þess að við meðferð málsins verði horft á hvernig hringrásarhagkerfið getur komið þarna inn líka. Eins og hefur verið komið inn á hér fyrr þá eru núna fleiri möguleikar en nefndir eru í frumvarpinu til hagkvæmrar og umhverfisvænnar orkuöflunar. Nú hefur skógur verið ræktaður af bændum á Íslandi í 50 ár og það fellur til bæði nytjaviður og úrgangsviður, grisjunarviður, úr þessum skógum. Eins og hefur verið komið inn á hér fyrr í umræðunni eru tilraunir í gangi á Austurlandi með viðarkyndingu úr endurunnum viði, sem sagt úrgangsviði sem þarf þá ekki að urða eða flytja úr landi eða gera eitthvað annað við, heldur nýtist hann til húshitunar. Það eru líka tilraunir í gangi með grisjunarvið og úrgangsvið frá timburvinnslu úr timbri sem er verið að nytja á Austurlandi. Mér finnst mjög mikilvægt að í umfjöllun þingsins verði horft til þess hvort skynsamlegt sé að taka þennan þátt inn í frumvarpið eða hvort horfa þurfi til annarra leiða til að hvetja til þess að nýta þennan við sem næst framleiðslustað og til að skapa verðmæti. Það er sérstaklega gaman að nefna viðarkyndistöð sem nýtir viðarköggla og hitar húseign Fljótsdalshrepps.

Mig langar einnig að nefna og taka undir það sem hefur verið sagt hér fyrr í umræðunni og hæstv. ráðherra kom m.a. inn á, þ.e. um mikilvægi þess að halda áfram að leita að heitu vatni, hvort sem það er fyrir höfuðborgarsvæðið, Árborgarsvæðið eða Grímsey. Grímseyingar sjálfir eru t.d. sannfærðir um að þar sé hægt að finna heitt vatn og hætta olíubrennslu á staðnum.

Frumvarpið snýst um hvata til þess að bæta orkunýtingu í íbúðarhúsnæði. En mig langar líka að nefna mikilvægi þess að horft sé til annarra bygginga, opinberra bygginga. Ég vil þá sérstaklega nefna, af því að það er svo nærtækt, Hallormsstað þar sem menn hafa líka verið að gera tilraunir með viðarkyndingu aðeins fyrr, en tæknin var þá kannski ekki orðin eins góð og hún er núna. Rekstraraðilar opinberra bygginga sem vilja skipta yfir í varmadælur eða aðra umhverfisvæna kyndingu og draga úr orkunotkuninni eiga ekkert endilega auðvelt með það vegna þess að þeir fá ekki aukið fé til að fara í framkvæmdina. Það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða leiðir til þess. Þetta á auðvitað við skóla á köldum svæðum. Svo má líka velta fyrir sér hvernig mætti hvetja atvinnustarfsemina, ferðaþjónustuna ekki síst, í sveitum landsins í þessum málum. Þetta eru tveir helstu punktarnir sem mig langaði að koma inn á, hvernig við nýtum viðinn í hringrásinni og þar sem verið er að framleiða og nýtum skógarauðlindina á Íslandi, og einnig hvernig við horfum til annarra bygginga en íbúðarhúsnæðis. Ég vil bara hvetja til þess að það verði skoðað í meðförum þessa máls, hvort sem það á heima akkúrat í þessu máli eða hvort við þurfum að finna aðrar leiðir til þess að stuðla að bættri orkunýtingu og betri auðlindanýtingu í þeim efnum.