153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

aðgerðir stjórnvalda í ríkisfjármálum.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir túlkun hennar á ríkisstjórninni. Að sjálfsögðu get ég ekki tekið undir þá túlkun. Það sést best á því að við gripum strax til aðgerða þegar verðbólgan fór af stað við að verja hina tekjulægri hópa. Ég tel að við munum áfram þurfa að hafa augun á þeim bolta því að það eru þeir hópar sem finna mest fyrir áhrifum verðbólgunnar. Ég nefndi hér áðan þá vinnu sem stendur yfir hjá hæstv. innviðaráðherra og varðar leigumarkaðinn. Þar er gert ráð fyrir því að sá hópur, þar sem aðilar vinnumarkaðarins sitja, geti skilað tillögum jafnt og þétt og þar verður að horfa sérstaklega á leigumarkaðinn því þar eru tekjulægstu hóparnir. Ég vil líka nefna það aðhald sem ég tel að við höfum verið að sýna og eigum að halda áfram að sýna í ríkisrekstri án þess þó að ganga á grunnþjónustuna. Svo vil ég náttúrlega segja það sem blasir við, það skiptir gríðarlegu máli að farsæl lending náist í kjarasamninga á vinnumarkaði. Það er auðvitað lykilþáttur í því að við náum tökum á verðbólgunni, að allir þessir þættir vinni saman; peningastefna, ríkisfjármál og vinnumarkaður.