153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

innleiðing loftslagslöggjafar ESB.

[15:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Illu heilli álpast íslensk stjórnvöld enn þá til að elta umhverfisstefnu Evrópusambandsins sem hentar aðstæðum á Íslandi engan veginn og er raunar líka óhentug fyrir Evrópusambandslöndin sjálf og er á góðri leið með að ýta burt iðnaði og framleiðslu frá Evrópu og þá ekki hvað síst til Kína og svo virðist mönnum vera mjög í nöp við það að fólk eigi eigin bifreið eða ferðist með flugvélum. Það á sem sagt að færa samfélögin 70 ár aftur í tímann þar sem bara þeir efnuðustu gátu átt eigin bíl og ferðast á milli landa. Nú stendur til, eins og rætt hefur verið, að innlima EES-svæðið í ETS-kerfi Evrópusambandsins og bæta þar á gríðarlegum nýjum refsisköttum sem munu koma alveg einstaklega illa út fyrir Ísland og í raun rústa Íslandi sem miðstöð flugs hér í Norður-Atlantshafi. Afleiðingarnar yrðu gífurlegar fyrir samfélagið allt. Það myndi draga mjög verulega úr ferðum til og frá landinu, þær myndu hækka mjög verulega í verði, áhugi fyrirtækja á að byggja hér upp starfsemi og fjárfesta myndi væntanlega minnka fyrir vikið, fiskútflutningur líða fyrir o.s.frv. Áhrifin af þessu yrðu gífurleg. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hann geti lýst því afdráttarlaust yfir hér að íslensk stjórnvöld muni ekki innleiða þetta regluverk nema tryggt verði að það fáist undanþága fyrir Ísland að því marki að samkeppnisstaða okkar skerðist ekki á nokkurn hátt. Og einnig spyr ég hvenær hæstv. ráðherra varð fyrst var við þessa hættu og brást fyrst við henni.