153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

breytingar á háskólastiginu.

[15:34]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í morgun birtist umfjöllun á vefritinu Heimildinni, í kjölfar þess að deildarforseti á hugvísindasviði Háskóla Íslands gagnrýndi fúsk og óráðsíu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í tengslum við fjármögnun háskólastigsins. Gagnrýnin snýr að því að þrátt fyrir að háskólinn sé undirfjármagnaður hafi ráðherra fært 2 milljarða úr háskólastiginu til að fjármagna svokallaðan samstarfssjóð háskóla.

Til hvers er þessi samstarfssjóður? Jú, honum er ætlað að auka áherslu á tilteknar námsgreinar, sér í lagi heilbrigðismenntun og svokallaðar STEAM-greinar; vísindi, tækni, verkfræði, listir og stærðfræði, og auka samstarf á milli háskóla á Íslandi, sem er svo sem jákvætt út af fyrir sig. En hér er ekki um að ræða viðbótarfjármuni heldur fjármagn sem hefði annars verið ráðstafað með fyrirkomulagi sem ráðherra kallar, með leyfi forseta: Einstaka úthlutanir með ógagnsæjum hætti.

En líkt og deildarforseti á hugvísindasviði spurði í grein sinni á Vísi, með leyfi forseta:

„Er það „gagnsærra jafnræði“ að taka stóran skerf úr rekstri háskólastigs sem verið hefur fjársvelt í áraraðir og setja í verkefni sem eðli sínu samkvæmt geta einungis farið fram á fáeinum sviðum?“

Nefnir hann sem dæmi að hug- og félagsvísindi finnist aðeins í mýflugumynd á Íslandi í öðrum skólum en Háskóla Íslands og því litlir möguleikar á veigamiklu samstarfi við aðra háskóla á þeim sviðum.

Markmið samstarfssjóðs verður þá vart skilið öðruvísi en svo að honum sé ætlað að gera aðgengi háskóladeilda að fjármagni háð pólitískum markmiðum ráðherra sem ekki er næg samstaða um til að þeim verði náð með öðrum leiðum, og draga úr möguleikum Háskóla Íslands til þess að bjóða upp á fjölbreytt nám, skera sig úr og tryggja valkosti sem ekki fyrirfinnast í öðrum háskólum á Íslandi.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða breytingar hefur ráðherra viljað gera á háskólastiginu sem hún nefnir í viðtali við Heimildina, sem ég nefndi hér áðan, og hvers vegna hefur ekki tekist að gera þær breytingar?