153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

breytingar á háskólastiginu.

[15:36]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma hér og ræða háskólastigið. Og já, það er umræða um það hvað varðar samstarf háskólanna að betra hefði verið að bæta við hreinum milljarði almennt í háskólastigið svo að hver skóli um sig hefði fengið nokkur hundruð milljónir almennt í sinn pott. Þingið ákvað að á safnlið háskólastigsins væru ákveðnir fjármunir til ráðstöfunar fyrir háskólastigið sem voru ekki í almennum rekstri einstakra háskóla. Það er því rangt með farið að þessir fjármunir hafi verið teknir úr almennum rekstri háskólanna og settir í einstök verkefni. Þessir fjármunir voru sérstaklega teknir úr safnlið háskólastigsins og settir fram með skýrum hætti gagnvart samfélagslegum áskorunum samfélagsins.

Hvaða áskorunum stöndum við frammi fyrir? Það er að okkur vantar fólk í mikilvægar greinar eins og heilbrigðisvísindi og menntavísindi. Okkur vantar fólk í greinum sem við köllum STEAM-greinar til þess að vaxtartækifæri, t.d. þekkingariðnaðar og hugvits, geti vaxið, eða landeldi og önnur tækifæri sem við sjáum sem mikilvæg eru í efnahagslífi þjóðarinnar.

Hver er staðan og hverju vill ráðherrann breyta, er spurt. Jú, staðan er sú að þrátt fyrir skýr markmið um að fjölga heilbrigðismenntuðum og menntuðum í svokölluðum STEAM-greinum þá hefur ekki tekist að fjölga þeim. Þar stöndum við verr en Norðurlöndin. Við menntum fleiri í félagsvísindum, hugvísindum og slíkum greinum en löndin í kringum okkur. Því hefur verið lofað í lengri tíma að breyta eigi reiknilíkani háskólanna. Það eru þær breytingar sem ég ætla að klára á þessu kjörtímabili, þ.e. að breyta reiknilíkani háskólans svo rétt reikniformúla fáist fyrir þær greinar sem kenndar eru. Það þarf að leiðrétta t.d. fjármunina fyrir félagsvísindin en það þarf líka að hafa skýrari hvata og samkeppni. (Forseti hringir.) Ef við ætlum að skapa hér gott háskólastarf þurfa skólarnir að vinna betur saman.