Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú veit ég að hv. þingmaður er nýkominn frá Kiev, höfuðborg Úkraínu og þegar ég les þjóðaröryggisstefnuna í dag og þessa tillögu til þingsályktunar um breytingu á henni langar mig til að spyrja: Telur hann að þessar breytingar séu eitthvert viðbragð við stríðinu í Úkraínu, innrás Rússa í Úkraínu? Og er von á einhverju öðru plaggi, breytingu á þjóðaröryggisstefnunni í ljósi þessarar innrásar? Eða er þetta svar stjórnvalda við innrás Rússa í Úkraínu? Það sem ég á erfitt með að skilja í þessu máli er að í þingsályktunartillögunni er farið yfir virkt alþjóðasamstarf, umhverfismálin, farið yfir mikilvægi innviða, það er farið í loftslagsmálin, það er talað um netöryggi og annað slíkt. en það er ekkert talað um auknar varnir Íslands í ljósi þessarar innrásar og mikilvægi Íslands í varnarbandalaginu sem heitir Atlantshafsbandalagið. Ég spyr bara hv. þingmann: Eru þetta þau viðbrögð sem koma frá íslenskum stjórnvöldum í ljósi innrásar Pútíns í Úkraínu? Öll önnur Norðurlönd hafa brugðist við innrásinni bæði hratt og örugglega og breytt áhættumati í öryggis- og varnarmálum. Ég sé ekki einn einasta staf í þessu máli, í þessari tillögu, sem lýtur að því, ekki einn. Það eina sem segir í þingsályktunartillögunni er, með leyfi forseta:

„Ný staða í öryggismálum Evrópu, alvarlegar afleiðingar hernaðar Rússa í Úkraínu og aukin spenna í alþjóðasamskiptum kalla á aukna árvekni á fjölmörgum málefnasviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til.“

Síðan ef maður skoðar nefndarálit með breytingartillögu frá meiri hlutanum segir, með leyfi forseta, nákvæmlega það sama:

„Ný staða í öryggismálum Evrópu, alvarlegar afleiðingar hernaðar Rússa í Úkraínu og aukin spenna í alþjóðasamskiptum kalli á aukna árvekni á fjölmörgum málefnasviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til.“

Hvar er það sem eru viðbrögð Íslands í þjóðaröryggisstefnunni við einu mesta stríði í 70 ár í Evrópu? (Forseti hringir.) Hvar er fjallað um það í þessu plaggi, í breytingartillögunni og þessari tillögu sem hér er til umfjöllunar?