Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt áhugaverð. Ég sé í nefndaráliti utanríkismálanefndar að hv. þingmaður skrifar undir með fyrirvara. Ef hún gæti kannski gert aðeins nánari grein fyrir fyrirvaranum, þá væri gott að heyra það. Svo er annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um og það er varðandi b-liðinn í breytingunni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem herlaust land sem tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.“

Þarna er verið að fella út orðin „sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her“. Í staðinn er komið „sem herlaust land“. Væri í fyrsta lagi ekki rétt að hafa það „herlaus þjóð“, af því að við tölum um fámenna eyþjóð? Ég skil heldur ekki þessa breytingu vegna þess að það mun verða her hér á landi. Ég skil ekki alveg þessa breytingu, ef hv. þingmaður gæti aðeins útskýrt það nánar hver tilgangurinn er með henni.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann út í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá því í fyrra. Þar kemur fram að hernaðarlegt mikilvægi Íslands hafi aukist vegna vaxandi spennu í samskiptum Rússlands og vestrænna ríkja. Ég get ekki séð að þessi þingsályktunartillaga, um breytingu á þjóðaröryggisstefnunni, taki á þessu aukna hernaðarlega mikilvæg Íslands eða á stríðinu í Úkraínu. Ég get ekki séð það.

Eigum við von á því að það komi önnur tillaga? Er þetta bara byrjunin á frekari endurskoðun á þjóðaröryggisstefnunni? Mér finnst, eins og ég sagði í andsvörum við formann utanríkismálanefndar, að ekki sé verið að fjalla um þær stórkostlegu breytingar sem eiga sér stað í þjóðaröryggismálum í Evrópu. Það er atriði sem ég botna ekki alveg í í þessari tillögu. Ég hefði haldið að við færum í algjöra endurskoðun núna í kjölfar þessa stríðs.