Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:34]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu, um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, er um margt áhugaverð. Vissulega er verið að leggja til mikilvægar breytingar hérna, m.a. að Ísland tryggi víðtæka öryggishagsmuni sína með virku alþjóðlegu samstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi. Einnig verði horft sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á hafsvæðinu umhverfis landið og á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og stuðlað verði að vernd og órofa virkni mikilvægra innviða og styrkingu áfallaþols samfélagsins gagnvart hvers kyns ógnum. Svo er tekið tillit til loftslagsbreytinga, það eru netöryggismál, net- og upplýsingaöryggi og tekið mið af öðrum ógnum sem þarfnast fullrar athygli, eins og segir í tillögunni, svo sem hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við stjórnskipun, stjórnkerfi og fjarskipti o.s.frv. Að lokum segir í tillögunni að það þurfi að endurspegla þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í stefnunni. Þetta er allt gott og blessað.

Í greinargerð þessarar tillögu til þingsályktunar sem hér er til umræðu segir, með leyfi forseta:

„Ný staða í öryggismálum Evrópu, alvarlegar afleiðingar hernaðar Rússa í Úkraínu og aukin spenna í alþjóðasamskiptum kalla á aukna árvekni á fjölmörgum málefnasviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til.“

Þetta er það eina sem segir í greinargerðinni um breytingu á þjóðaröryggisstefnu Íslands sem lýtur að stríðinu í Úkraínu. Þetta er það eina. Ef við skoðum síðan breytingartillögu utanríkismálanefndar þá langar mig að lesa það, en það er sama setning og er í sjálfri tillögunni, með leyfi forseta:

„Ný staða í öryggismálum Evrópu, alvarlegar afleiðingar hernaðar Rússa í Úkraínu og aukin spenna í alþjóðasamskiptum kalli á aukna árvekni á fjölmörgum málefnasviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til. Því sé rétt að skerpa á tilteknum sviðum þjóðaröryggisstefnunnar og taka tillögurnar m.a. til þess að þjóðaröryggisstefna tryggi lýðræðislegt stjórnarfar, áherslu á hafsvæðið umhverfis landið, áherslu á vernd og órofa virkni mikilvægra innviða og styrkingu áfallaþols samfélagsins …“

Ég hefði haldið, í ljósi þess sem er búið að gerast í Evrópu, innrás Pútíns í Úkraínu, að við myndum fara í heildarendurskoðun á þjóðaröryggisstefnunni. Svíar og Finnar eru með umsókn um að ganga í Atlantshafsbandalagið, umsókn sem allar þjóðir hafa samþykkt nema Tyrkland, í kjölfar þessarar innrásar. Norðmenn eru að endurskoða sín mál. Danir eru líka að gera það. Ef ég skil rétt af fréttum vilja báðar þjóðirnar hafa varanlega setu bandarísks herliðs í báðum löndunum, en hún er svona tímabundin, er róterað og er tímabundin í hvert sinn. Ég er ekki að kalla eftir því að bandaríski herinn komi hérna aftur með herstöð, alls ekki. En við þurfum að bregðast við þessari miklu ógn og það eigum við að gera í þjóðaröryggisstefnu. Það er það sem vantar. Ég kalla eftir því að það verði lögð fram breyting, vonandi á næsta þingi eða bara sem allra fyrst, sem taki mið af þessum breytingum. Það er gríðarlega mikilvægt.

Það eru margir góðir punktar í þessari tillögu sem hér er lögð til til breytingar á þjóðaröryggisstefnu, t.d. um umhverfismál, órofa virkni mikilvægra innviða, loftslagsbreytingar, netöryggi o.s.frv., það er ekki það. Við verðum hins vegar að horfa til raunveruleikans eins og hann er í dag í Evrópu. Það er grundvallaratriði. Við verðum líka að horfa til þess sem segir í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá í fyrra um að hernaðarlegt mikilvægi Íslands hafi aukist. Þar segir í skýrslunni:

„Hernaðarlegt mikilvægi Íslands hefur þannig aukist vegna vaxandi spennu í samskiptum Rússlands og vestrænna ríkja.“

Þar segir einnig, með leyfi forseta:

„Taka þarf mið af auknu hernaðarlegu mikilvægi landsins við stefnumótun, skipulag og áætlanagerð og þeim áhrifum sem það hefur á íslenska öryggishagsmuni.“

Ég get ekki séð að þessar breytingartillögur sem eru lagðar fram til breytingar á þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisráð og breytingartillögur utanríkismálanefndar taki á þessari auknu spennu í samskiptum við Rússland eða vegna stríðsins í Úkraínu. Það sem er eiginlega hérna undir er að þetta er uppfærsla á þjóðaröryggisstefnunni eins og það væri ekkert stríð. Ég hugsa að það mætti fullyrða að það hefðu verið gerðar nákvæmlega sömu breytingar þó að það hefði ekki orðið neitt stríð. Það er það sem vantar. Það sýnir hversu mikil þörf er á að fara inn í þetta.

Ég tel að breytingartillaga sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir leggur fram, um að unnið verði að sérstakri varnarstefnu fyrir Ísland sem byggist á þeim forsendum sem koma fram í þjóðaröryggisstefnunni, sé mikilvæg. Í henni kemur fram: „Varnarstefnan leggi grunn að og skýri fyrirkomulag stjórnsýslu, framkvæmd, ábyrgð og fjármögnun varnarmála Íslands.“ Það er kannski svolítið mikið að segja fjármögnun varnarmála Íslands þar sem við erum með varnarsamning við Bandaríkin, mesta herveldi heims. Það er ljóst að þeir munu sjá um varnir Íslands ef til átaka kæmi. En við eigum samt sem stjórnsýsla að geta haft okkar stefnu, sýnt okkar viðbragð, segja hvað við viljum og hvernig við ætlum að framkvæma varnarstefnuna. Í sumum ríkjum er það hluti af fullveldinu að geta varið sig. Við höfum ekki her og þess vegna byggir þjóðaröryggisstefna okkar í grundvallaratriðum á varnarsamningnum við Bandaríkin og veru okkar í Atlantshafsbandalaginu.

Í núgildandi þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland segir, með leyfi forseta: „Þjóðaröryggisstefnan feli í sér eftirfarandi áherslur sem hafi jafnt vægi“ og þar í 3. tölulið er talað um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og í 4. tölulið að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tryggi varnir Íslands. Þetta eru grundvallarstoðirnar og hafa ekki jafnt vægi á við aðra þætti, þessa ellefu töluliði sem þarna eru undir. Það bara er ekki þannig. Svo einfalt er það.

Ég tel að það sé gott, í a-lið breytingartillögu utanríkismálanefndar, að orðin „varnir Íslands“ séu komin þar inn, það sé rétt að skerpa á því að þjóðaröryggisstefnan taki til varna Íslands. Það er rétt. Ég tel hins vegar að breytingartillaga utanríkismálanefndar um b-liðinn sé eiginlega óþörf og ekki eiginlega óþörf, hún er óþörf. Þar segir, með leyfi forseta:

„Grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem herlaust land sem tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.“

Þarna eru sett orðin „herlaust land“ í staðinn fyrir „fámennrar þjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her“. Mér finnst miklu skýrara að segja að grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her. Það er sannara og það er réttara heldur en að segja bara herlaust land. Ég tel að það mætti sleppa þeirri breytingartillögu.

Varðandi c-liðinn þá er það leiðrétting samkvæmt greinargerðinni, þ.e. að á eftir orðinu „tengjast“ í d-lið komi: loftslagsbreytingum. Það er vel skiljanlegt þegar maður skoðar upphaflegu tillöguna frá forsætisráðherra. Svo er það d-liður breytingartillögunnar, um að í f-lið séu sett inn orðin „að efla stafrænt fullveldi“ þar sem fjallað er um að stuðla að auknu net- og upplýsingaöryggi á öllum sviðum samfélagsins með samhæfðum aðgerðum, áframhaldandi uppbyggingu á eigin getu og með samstarfi við önnur ríki. Þarna fremst koma inn orðin um að efla stafrænt fullveldi. Það er gott og blessað.

Vandamálið er að það eru önnur atriði sem vantar í þetta líka. Það vantar að fjalla t.d. um hvernig við ætlum að taka á upplýsingaóreiðu. Það þarf að hafa það í þjóðaröryggisstefnu. Það þarf líka að fjalla um hvernig við ætlum að taka á ólöglegri starfsemi, eins og hefur t.d. komið í ljós að Kína er með í Hollandi og öðrum ríkjum; lögreglustöðvar í heimahúsum til að fylgjast með fólki sem er upprunnið frá Kína. Við þurfum líka að byggja þjóðaröryggisstefnuna á grundvelli nýrrar grunnstefnu NATO. Það er ekkert í þessum plöggum sem vísar til nýrrar grundvallarstefnu NATO. Það segir ekkert í þjóðaröryggisstefnu um það hvernig við viljum að norræn varnarsamvinna verði aukin, ekki neitt. Það vantar. Eða hvernig við ætlum að bregðast við óstöðugleika á norðurslóðum, hvernig við eigum að koma að því máli eða hvaða aukna viðbúnað við viljum sjá á öryggissvæðinu í Keflavík eða þá einfaldlega hvernig best sé að tryggja varnir Íslands. Það er ekkert fjallað um það grundvallarhugtak fyrir þjóðaröryggi eða varnarmál allra smáþjóða, allra ríkja, sem er fælingarmátturinn. Hvernig ætlum við að koma í veg fyrir að það verði ráðist á okkur? Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að bregðast við breyttu hernaðarlegu mikilvægi landsins? Það er ekki fjallað um það í þessu.

Ég get ekki annað séð en að við þurfum að fá, og vonandi sem allra fyrst, aðrar breytingartillögur um þjóðaröryggisstefnu sem taka á ástandinu í dag, auknu hernaðarlegu mikilvægi þjóðarinnar og með hliðsjón af stríðinu í Rússlandi. Það er sorglegt að fylgjast með því stríði þar sem ein helsta menningarþjóð Evrópu eða forystumaður hennar, hefur ákveðið að ráðast á grannþjóð sína. Við höfum tekið vel á því máli hér í þinginu og stjórnvöld um það að styðja úkraínsku þjóðina heils hugar í sinni baráttu fyrir tilvist sinni og frelsi og sjálfstæði. Ég legg áherslu á orðið tilvist. Þetta er tilvistarstríð hjá þeim. Það er alveg ljóst. Að ein mesta menningarþjóð Evrópu skuli vera að standa á bak við þessa hernaðaríhlutun, innrás í Úkraínu, er bara grátlegt, hörmung að sjá það.

Ég tel að þær breytingartillögur sem hér eru til umræðu séu að mörgu leyti mjög góðar en þær taka ekki á stærsta vandanum. Þær gera það ekki á nokkurn einasta hátt. Það er atriði sem við þurfum að fjalla um síðar í þessum þingsal og koma þá með varnarstefnu, vonandi, og öryggisstefnu þar sem er lögð áhersla á það að þjóðaröryggi Íslands er grundvallað á tveimur stoðum; varnarsamningnum við Bandaríkin og aðildinni að Atlantshafsbandalaginu. Þessar tvær stoðir hafi ekki jafnt vægi á við aðra liði sem eru taldir upp í þjóðaröryggisstefnu Íslands. Þær gera það ekki. Þetta er alger grundvallarforsenda í þjóðaröryggismálum Íslands og það er það sem við byggjum tilvist okkar á sem sjálfstæð þjóð og það er það sem ver okkur. Ég vil benda á það líka að þegar bandarískur herafli kom hingað á sínum tíma þá kom hann áður en árásin á Pearl Harbor átti sér stað 7. desember 1941. Hann kom á grundvelli svokallaðar Monroe-kenningar um að við værum hluti af Vesturheimi, „western hemisphere“, ef ég má sletta. Ég vona að Bandaríkin líti á það sem svo að varnir Íslands séu hluti af þeirra eigin vörnum. Við þurfum hins vegar að fjalla um þetta með skýrum hætti sem sjálfstæð þjóð og þessi breytingartillaga, svo góð sem hún er, gerir það ekki.