131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Förgun sláturúrgangs.

476. mál
[15:48]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Saga kjötmjölsverksmiðjunnar á Suðurlandi er að sjálfsögðu mikil sorgarsaga. Kannski rann á vissan hátt upp fyrir manni ljós þegar maður hlustaði á hæstv. landbúnaðarráðherra þylja upp þessar löngu romsur af alls konar reglugerðum og fargani sem er í kringum meðhöndlun á sláturúrgangi. Þær eru alveg hreint með ólíkindum, allar þessar reglur, en svona er þetta víst.

Það var fagnaðarefni að heyra að ráðherrann sæi því ekkert til fyrirstöðu að hægt væri að heimila kjötverksmiðjum að framleiða mjöl til fóðurs fyrir loðdýr ef skilyrðum um slíka framleiðslu væri fullnægt. Það liggur í augum uppi að einmitt þessi úrgangur verði notaður í fóðurframleiðslu fyrir loðdýr á sama hátt og okkur berast gleðilegar fregnir af því að slóg úr íslenskum eldislaxi er nú notað í loðdýrafóður hér á landi. Vonandi mun þessi þróun halda áfram og vonandi eigum við eftir að sjá meira af slíku í framtíðinni.