135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skipafriðunarsjóður.

236. mál
[18:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kem aðeins í pontu til að fylgja eftir áhuga mínum á því máli sem hér er lagt fram. Ég hef áður hreyft áþekku máli í Alþingi, m.a. með því að reyna á þeim tíma að fá fjármuni úr úreldingarsjóði fiskiskipa til að varðveita gömul skip. Ég taldi að það væri verðugt hlutverk þess sjóðs eftir að inn komu meiri fjármunir en menn höfðu gert ráð fyrir gegnum úreldingarsjóð og með ýmsum skuldbindingum sem honum fylgdu. En það varð ekki úr að fé fengist úr úreldingarsjóðnum sérstaklega til að varðveita gömul skip. Eigi að síður hefur umræðan vissulega orðið til þess á undanförnum árum að margir hafa fengið áhuga á þessu verkefni og auðvitað margir á undan þeim sem hér stendur og menn hafa tekið frumkvæði í því að reyna að varðveita þennan menningararf íslensku þjóðarinnar sem eru gömlu fiskveiðiskipin okkar.

Að vísu höfum við misst út úr fiskveiðasögunni mörg skip sem hefði verið gaman að eiga eintak af. Við eigum t.d. engan gamlan botnvörpung sem hefði verið mjög áhugavert að eiga og það var í raun og veru synd að ekki skyldi takast að bjarga síðutogaranum Guðmundi Júní sem var sökkt við slippinn á Ísafirði og fylltur af grjóti á sínum tíma en það er mjög merkilegt skip. Ég fór þar um borð þegar það var þarna í fjörunni og gerði tilraun til að koma honum undan því að verða að grjótfyllingu en það tókst ekki. Í lúkar þess skips voru 32 kojur, þrjár á hæðina sums staðar og fjórar sums staðar og ein eldavél aftast. Þetta var auðvitað einn af elstu eða með elstu síðutogurunum og forveri nýsköpunartogaranna ef við getum sagt sem svo, sem komu eftir stríðið en við eigum heldur ekki neinn nýsköpunartogara. Þeir eru allir farnir úr landi og marga er búið að setja í brotajárn. En það má svo sem sjá eintak af slíkum togurum úti í Bretlandi og kannski víðar. En trébátarnir okkar sem bera langa og merkilega sögu, er auðvitað eitthvað sem við þurfum að varðveita og það hefur vissulega verið tekist á við það. Ég hef getað tekið þátt í því ásamt þeim sem hafa setið í fjárlaganefnd á undanförnum árum að veita ýmsum styrki í það að bjarga gömlum tréskipum og á mörgum söfnum landsins eru slík eintök og það er sem betur fer enn þá verið að byggja upp þó nokkra báta bæði eldri og þess vegna báta sem voru í fullum rekstri fram á síðustu ár. Sumir af þessum bátum hafa fengið algerlega ný hlutverk, t.d. í hvalaskoðun, og hafa verið gerðir mjög fallega upp. Það má t.d. nefna skip sem eru norður á Húsavík í hvalaskoðun og það má nefna skip eins og Húna II sem er á pollinum á Akureyri og mörg fleiri skip. Sums staðar eru þessi skip uppi á landi. Sumum er vel við haldið og þau eru falleg en það er mjög vandasamt að halda skipum við uppi á landi svo vel fari og það þarf að hugsa mjög vel um þau til að þau haldi reisn sinni og glæsileika en það er auðvitað hægt.

Ég vildi bara koma hér upp til að mæla eindregið með því að þessi tillaga fái gott brautargengi hjá hv. Alþingi og verði samþykkt þannig að við komum á fót sjóði sem fær svipað hlutverk varðandi skipin og húsafriðunarsjóður hefur í dag, að takast á við það að velja úr eintök sem við viljum varðveita, endurbyggja og viðhalda og það er auðvitað ekki seinna vænna að takast á við það merkilega verk.